Ofur-skál
Fórum í dag í ofur-skálar-partý til Todds og Torie-ar. Ofur-skálin er verðlaunagripur sem tvö amerísk fótboltalið berjast um á hverju ári – og þá er amerísk skylda að halda partý. Áttum góða stund fyrir framan sjónvarpið með nokkrum góðum vinum og fullt af snarli og mat. Krakkarnir stóðu sig vel, þó svo að þeim hafi verið farið að leiðast þófið undir lokin.
Ég reyndi að fara áður en leikurinn var búinn til að planta Bjarka í rúmið, en síðustu leikmínúturnar urðu bara of spennandi til að maður gæti farið heim. Eins og tíðkast þá tók auðvitað rúmlega hálftíma að leika síðustu fimm leikmínúturnar enda óendanlega mörg hlé og alltaf verið að stoppa út af hinu og þessu. Auglýsingarnar í ár voru svona la-la, lítill frumleiki í gangi því miður.
Krakkarnir hrundu í rúmið þegar við komum heim, og í kvöld er ég búin að dunda mér við að skíra myndamöppurnar frá júní fram til dagsins í dag. Myndakerfið okkar er þannig að tölvan splittar myndum sjálfkrafa upp í möppur eftir dagsetningu, og svo finnst mér gott að fara yfir möppurnar (greinilega með árs-millibili) og skíra þær svo ég viti hvað þar sé að finna. Að því loknu sá ég að ég þarf að fara yfir 6500 myndir til að komast frá núverandi myndasíðu til dagins í dag. Er það nokkuð mál? 🙂