Langur lúr
Merkilegheit dagsins: Bjarki tók sér þriggja tíma lúr í morgun! Reyndar var hann líklega bara að vinna upp lúrleysi gærdagsins, svo ég býst ekki við að þetta endurtaki sig á næstunni. Merkilegheit dagins #2: Í dag var fyrsti dagurinn með mat frá nýju kaffiteríunni í hádeginu. Maturinn var ágætur, og merkilegt nokk þá bragðaðist hann öðruvísi en frá gömlu kaffiteríunni. Ætli það sé ekki sjálfsagt, enda hver kokkur með sinn stíl.
Annar var þetta ferlega týpískur dagur. Lítið um afrek á skriftarsviðinu, en nokkur orð komust þó niður á blað, inn á milli þess að ég velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að vera að minnast á hitt og þetta sem flækir bara málið. Niðurstaðan var að byrja með þetta eins einfalt og hægt er, og fá það útkrotað aftur í hausinn áður en ég fer að flækja þetta.
Í miðjum pælingum datt ég annars inn í doktorsritgerð eins fyrrverandi skrifstofufélagans og fannst ég vera að skrifa léttvægt froðupopp í samanburði. Skondið hvernig sumt fólk getur skrifað þannig að það hljómi merkilegra og mikilvægara en annað. Svona eins og sumt fólk kastar sig í leiðtogahlutverk með kjaftinum einum saman.