Kjólaland
Eftir hefðbundinn morgun hjá Finni og krökkunum, þá fórum við Anna í sund á hádegi á meðan drengirnir lúrðu. Anna fékk þá snilldarhugmynd eftir sund að borða hádegismat í Ikea, sem er einmitt á leiðinni heim. Þegar þangað var komið reyndist Ikea lokað (!!!) vegna vatnsskorts og við urðum frá að hverfa. Hvað ætli þeir hafi tapað miklum pening þann daginn?!
Eftir stutt stopp heima við fórum við mæðgur aftur út í bíl og keyrðum norður eftir til Suður-San-Fran, því ég hafði lofað Cecile að koma að hjálpa henni að velja sér brúðarkjól. Þeir sem þekkja mig vita að ég er munnstór með meiru, óheyrilega gagnrýnin og ófeimin, sem kemur sér víst stundum vel þegar velja skal kjól.
Ég held að Anna hafi verið svolítið hissa að ganga inn í kjólaparadísina hjá David’s Bridal, en hún jafnaði sig fljótt og áður en varði var aðstoðarkonan okkar farin að rétta henni alls konar skraut til að leyfa henni að prófa. Anna fékk að prófa brúðarslör (sem hún síðan notaði í kastæfingar), risastóra rauða slaufu, og fína gimsteinaspöng. Kjólamátunin gekk ágætlega, en að sjálfsögðu var besti kjóllinn helmingi dýrari en upphafleg fjárhagsáætlun hafi gert ráð fyrir.
Hér eru þrjár myndir teknar með gSímanum okkar:
Þegar heim var komið, þá hafði Finnur bakað calzone hawaiian pizzur (namm!). Í ljós kom að hann hafði verið netlaus allan daginn (það byrjaði rétt áður en ég fór) og mig grunaði að það væri eitthvað tengt því að einhver Comcast-gæi hafði verið að fikta í tengiboxi úti á gangstétt eftir hádegi. Við hringdum og pöntuðum því viðgerðarmann fyrir morgundaginn og horfðum loksins á eina Netflyksuna sem hafði dagað uppi á sjónvarpi.