Helgaruppgjörið
2009-02-22Uncategorized Standard
Sunnudagskvöld komið, óskarinn búinn og tími til að gera upp helgina.
Föstudagur
Hápunktur dagsins var saumaklúbbur um kvöldið hjá Margréti í Palo Alto. Fámennt en góðmennt eins og maður segir og veitingarnar æði.
Laugardagur
Eftir mæðgna-sund var borðaður hádegismatur í Ikea, við skruppum í Carter’s barnafatabúðina og svo í Heilu Búðina. Síðan héldum við öll í partý til Kamakshi í tilefni af tveimur óléttum (Ana og Kat hans Fraser) og einu tilvonandi brúðkaupi (Cecile). Nú er nefnilega loksins loksins loksins fyrsta barnaholskeflan að skella á, og sömuleiðis er brúðkaups-kaflinn loksins að líða undir lok.
Kamakshi býr annars í sama leigu-komplexi og við bjuggum í 2001-2004. Það var því heldur súrrelískt að koma heim til hennar og upplifa alveg eins íbúð og við bjuggum í, en með allt öðrum húsgögnum. Það var líka skondið að stofan sem okkur fannst svo stór á sínum tíma, er bara frekar lítil, amk miðað við nýju stofuna okkar. Merkilegt hvað maður miðar alltaf allt við allt annað!
Sunnudagur
Á meðan Finnur og Bjarki tóku sér hádegislúr, þá fór Anna til vinkonu sinnar í götunni (já, hún hleypur sjálf á milli húsa) og ég hreinsaði út úr skápnum undir stiganum. Síðan bakaði ég pönnukökur, því við vorum búin að bjóða okkur í heimsókn til Deirdre og Matt og sprengjudagur heitir víst “pönnukökudagur” á Írlandi. Þau eru loksins flutt inn í nýja húsið sitt, sem þau eru búin að vera að byggja í rúm þrjú ár. Húsið er rosalega fínt, og Anna og Bjarki skemmtu sér konunglega í húsgagna-snauðu húsinu. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þau fylla upp í húsið, enda óendanlega gaman að lifa í gegnum aðra! 🙂
Á meðan ég var að baka pönnukökurnar var mér hugsað til þess hvað æskan skapi viðhorf manns. Þannig hef ég til dæmist heyrt frá mörgum að þeim þyki erfitt að baka pönnukökur. Ég var hins vegar alin upp við það að pönnukökum var vippað upp af minnsta tilefni, sérstaklega af pabba og Gunnhildi systur hans. Þannig að pönnukökur eru í mínum huga “auðveldar”, og það er líklega bara af því að ég man eftir að hafa séð þær búnar til þegar ég var lítil.