Foreldrafundur
2009-02-24Uncategorized Standard
Rúmlega fjögur í dag mættum við Finnur á foreldrafund í bekk Bjarka. Hann var með óvenjulegu sniði, og greinilegt að það var verið að prófa eitthvað nýtt. Kennararnir þrír höfðu sum sé hóað í allar fjölskyldunar sjö og beðið okkur um að hittast í “margnota-herberginu”, sem er stórt rými notað fyrir kynningar, viðgerðir, geymslu o.s.frv. Á meðan voru varakennarar (“söbbar” eða “subs” fyrir “substitute”) með krökkunum.
Þegar fulltrúar frá öllum fjölskyldum voru mættir þá byrjaði fundurinn. Fyrst var myndasýning til að koma öllum í gott skap. Síðan bað einn kennarinn (allir kennararnir eru kvenkyns, finnst eins og ég eigi að skrifa “ein kennaran”) alla um að tala stuttlega um hvað krakkarnir okkar eru að gera þessa dagana sem okkur þykir jákvætt/nýtt/skemmtilegt. Margir minntust á sívaxandi orðaforða og nýjar víddir í félagslegri hegðun.
Að því loknu tók annar kennari til máls og sagði að þær hefðu viljað kalla til þessa fundar til að tala um hvað er að gerast í þroska barnanna okkar. Þau eru nefnilega öll að breytast úr smábörnum (“infant”) í börn (“toddler”). Í því felst helst að í staðinn fyrir að lifa bara í “núinu” og skoða heiminn með skynfærunum (munni, höndum) þá eru börnin farin að muna hluti, læra rútínur og þreyfa sig áfram með huganum.
Hún lagði sérstaka áherslu á að á þessum tíma væri mikilvægt að setja börnunum mörk, en virða á sama tíma tilfinningar þeirra. Hvað Bjarka varðar myndi þetta til dæmis þýða að þegar við neitum honum um aðgang að opinni uppþvottavélinni, og hann verður fúll, þá ber okkur að segja hluti eins og “ég skil að þú ert reiður, en það er hættulegt að leika við hnífa” (eða “hnífur, ó-ó…”). Hún minntist líka á að börn þroska marga þætti samtímis, ekki bara tungumál og svo félagslega hegðun, heldur bæði í einu, þó svo að eitt geti verið meira áberandi en annað af og til. Í lokin minnti hún okkur á að börn þroskast á sínum eigin hraða, og að það sé ekkert að því.
Eftir þann fyrirlestur var okkur foreldrunum skipt í þrjá hópa, og við beðin að “brainstorma” um þrjár spurningar. Spurningarnar voru “hvað er nýtt”, “á hverju hafa þau áhuga”, “erfiðleikar á þessum aldri”. Hver hópur skrifaði sínar hugmyndir niður á stórt blað og þegar við vorum búin, þá fór einn úr hverjum hópi yfir það sem hópurinn hafði talað um. Ferlega bandarískt, en samt gaman að heyra að fólk er að eiga við sömu hluti og maður sjálfur. Mig grunar líka að kennurunum hafi þótt áhugavert að heyra hvað er að gerast á heimavelli.
Upp úr þessu spunnust smá umræður, en síðan var skipt um gír og fluttar “almennar tilkynningar”. Í blálokin var farið yfir reglur um veikindi barna og hvenær þau mega mæta á leikskólann eftir veikindi o.s.frv. Það er búið að vera mikið um veikindi á leikskólanum og ætli það sé ekki verið að reyna að draga úr því. Þar með var fundinum slitið og við fórum og náðum í krakkana og héldum heim á leið.