Ferlega venjulegur dagur
Þetta var ferlega venjulegur dagur í alla staði. Helst var óvenjulegt að það blés kaldur vindur um hverfið og í fyrsta sinn í langan tíma langaði mig í vettlinga og þykkari jakka á göngunni út að leikskóla. Inni við leituðu hugsanir um framtíðina á mig á meðan ég barðist við að halda nógu mikilli einbeitningu til að skrifa niður einfaldar skilgreiningar á einföldum hugtökum.
Fróðleik dagsins fékk ég úr Predictably Irrational bókinni sem ég er að lesa í smáum skömmtum. Í henni lærði ég í kvöld hvað FREE! hefur ótrúlega sterk áhrif á mannskepnuna og lætur okkur gera heimskulega hluti. Í gær lærði ég að það að ég sit og skrifa doktorsritgerð er út af “arbitrary coherence”, sem þýðir að ég tók ákvörðun um eitthvað (sem var mögulega lítilvægt þá) fyrir einhverju síðan og síðan þá hef ég hagað mér í samræmi við þann byrjunarpunkt. Daginn þar á undan lærði ég að mannskepnan velur með því að bera saman, og að það er afskaplega auðvelt að blekkja samanburðar-maskínuna. Fyrir þá sem eru forvitnir, þá eru aðalatriðin hér.