Augnskoðun
Ég fór í morgun með Bjarka til barna-augnlæknis. Hann átti tæknilega ekki að mæta í skoðun fyrr en næsta sumar, en fyrir nokkrum vikum sá ég hægra augað hans Bjarka “renna” inn í áttina að nefinu og fékk að vita að þær höfðu líka séð það gerast á leikskólanum. Þar með ákvað ég að láta líta á drenginn til að sjá hvort að það þyrfti að setja lepp yfir “góða” augað til að hvetja hitt til dáða.
Eftir að Bjarki var búinn að fá augndropa til að víkka út sjáöldrin, kvað læknirinn upp að hann héldi að þetta væru bara ósamstilltir vöðvar, að þeir ættu eftir að fínpússa sig, og þetta myndi því lagast að sjálfu sér. Hann sagði að Bjarki væri ennþá örlítið nærsýnn, en að nú væri það nær -0.5 en ekki -1 eins og síðasta sumar. Augun eiga það víst til að “laga sig” þegar þau vaxa svo að það er aldrei að vita nema að Bjarki sleppi við gleraugu – en hver veit – stundum “of-laga” augun sig víst!
Sá stutti var annars heppinn, því að þegar við keyrðum af stað frá lækninum lentum við strax undir stærðarinnar rigningarskýi, svo að hann blindaðist ekki alveg með sín útvíkkuðu sjáöldur.
Eitt í lokin… Í rigningardoðanum finn ég þörf til að vita að þetta blogg-stand mitt sé einhverjum til gagns og gamans. Áramótaheitið í ár var að reyna að blogga oftar, og gott ef ég hef ekki sett inn færslu daglega síðan þá… Sem fyrr er lítið um komment… kannski þarf ég að setja fram fleiri beinar spurningar. Hvað um það – eitt lítið “hæ” endrum og eins væri vel þegið. Annars er bara eins og maður sé að hrópa ofan í tóma tunnu!! 🙂 (Yeah, yeah… blogg ætti að vera fyrir mann sjálfan til að lesa yfir á elliheimilinu, en samt… 🙂 <- sjá hér