Vindar breytinga
Skrítinn dagur í dag. Allt að gerast svo fjarri landfræðilega séð, en samt nálægt sálinni. Ekki nóg með að það sé loksins kominn nýr forseti í Bandaríkjunum heldur les maður fréttir um bálköst fyrir framan alþingishúsið á Íslandi.
Ég er óendanlega fegin að vera loksins laus við álfabjánann hann Bush, og hélt upp á það með því að horfa á alla ræðuna hans Obama. Ég hef ekki hlustað á meira en þrjú forsetaorð í einu undanfarin átta ár – í hvert skipti sem ég heyrði í Bush þá var ég fljót að skipta um rás eða reka upp gól. Veit ekki hvað það var, kannski fannst mér hann sífellt vera að ljúga að mér… svona eins og alki að betla pening sem lofar að nota peninginn ekki fyrir áfengi. Yeah, right.
Nokkrum klukkustundum austar voru Íslendingar að berja sér á brjóst, bæði mótmælendur og lögregla ef maður les rétt á milli línanna. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda, en miðað við klaufaskap stjórnenda, þá kemur þetta ekkert sérstaklega á óvart. Ekki veit ég hver lausn vandans er, en mikið vildi ég óska að það kæmi fram einstaklingur eða hópur fólks sem talaði með jafn mikilli yfirvegun og skynsemi og Obama.
Ég hef heyrt að nýir ræðumenn og -konur hafi komið fram á undanförnum mánuðum, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hver væri betri en Hattarnir og Fattarnir sem eru við stjórnvölinn núna. Ég kemst ekki yfir það að stjórnmálaflokkar séu að miklu leyti búnir til af fólki sem var á sínum tíma í stjórnum nemendafélaga í menntó og hafi ekki þroskast mikið meira en það. Þess fyrir utan þekkja allir alla og það er erfitt fyrir nýtt fólk að brjótast inn í kerfið. Og myndi maður vilja einhverja óreynda sál?
Obama er kannski óreyndur stjórnandi, en hann greinilega mjög greindur, óvenjulega raunsær, skemmtilega forvitinn og með sjóað fólk sér til halds og trausts. Er til einhver “draumastjórn” fyrir Ísland? Er kominn fram einhver leiðtogi?