Synt í tjaldi
Ég fór í morgun með Önnu í pleideit til einnar bekkjarsystur hennar sem er heilum tveimur árum yngri. Foreldrarnir eru víst að reyna að stækka félagshring dótturinnar, sem er ekkert slæm hugmynd, en ég er ekki alveg viss um að tvö ár séu auð-yfirstíganleg. Eftir heimsóknina fór ég með Önnu í fyrsta sundtímann eftir að þeir settu risastórt tjald yfir kennslu-sundlaugina. Það skal viðurkennt að það var hlýrra inni í tjaldinu en fyrir utan það, og það var ágætt að fá frí frá sólinni, en mér fannst þetta samt heldur skondið.
Eftir hádegi gekk ég með Önnu yfir til nágranna okkar til að athuga hvort hún gæti leikið sér við dótturina á heimilinu, hana Sadie. Sú er jafngömul Önnu og á í fullu tréi við hana. Hún er einstaklega rík af fínum prinsessu-kjólum (sem við eigum takmarkaðar birgðir af, sussusvei, vond móðir) sem þýðir að partur af því að fá Önnu heim er að koma henni aftur í sín eigin föt. Hvað um það, Anna sást ekki næstu fjóra tímana enda lítið vit í að koma heim þegar það er vinkona á svæðinu. Kvöldið var svo bara rólegt og nú er bara að finna okkur eitthvað að gera á morgun…