Nýtt kafmet
Ég fór með Önnu í sund í Stanford lauginni í dag því að hin laugin hefur verið lokuð á meðan verið var að setja “airdome” yfir hana. Það mun vera plasthús til að vernda sundlaugagesti frá rigningu og “köldu” veðri yfir vetrarmánuðina. Já, Kaliforníubúar eru klikk!
Þegar á kampus var komið kom í ljós að laugin sem var opin fyrir almenning var 50 m laugin sem er alls staðar 3ja metra djúp. Laugin reyndist talsvert kaldari en sú sem við erum vön að nota, en við dembdum okkur samt út í. Anna svamlaði heilmikið og þeirri stuttu tókst meðal annars tvisvar að kafa alla leið niður á botn til að ná í plastdót sem komum með. Reyndar þurfti hún að stökkva út í til að komast niður á botninn, en mér fannst þetta heldur betur gott hjá henni. Anna verður samt örugglega fegin að komast aftur í gömlu laugina, sem er “bara” tæpir 2 m á dýpt þar sem dýpst er, því þar fer hún létt með að kafa niður á botn.
Við enduðum daginn í kvöldmat hjá fjölskyldu Lulu eins og oft áður. Átum á okkur gat og tjúttuðum aðeins með krökkunum af okkur ísinn sem var í eftirrétt áður en haldið var heim á leið.