Langur morgunlúr
Enn ein bloggfærslan frá mínu ótrúlega spennandi daglega lífi. Eru ekki allir spenntir?! 🙂 Hápunktur dagsins var (grínlaust) að mér tókst að svæfa Bjarka klukkan 10:20 í morgun. Ótrúlegheit dagsins voru að Bjarki svaf síðan í tæpa þrjá tíma!!
Baksagan er sú að eftir að við komum úr jólafríinu þá sofnaði Bjarki alla morgna í heila viku rétt rúmlega 10 á meðan ég gaf honum mjólkupela og svaf í tvo tíma. Síðan veiktist hann og þá varð svefntíminn óreglulegur. Vikuna eftir veikindin hætti hann að vilja sofna á morgnana og fór seint og illa að sofa, oft ekki fyrr en á hádegi. Sem fyrr fannst honum, og finnst enn, bara fjör að vera í rúminu sínu – hann spjallar, skoðar sig um og notar tækifærið oftar en ekki til að kúka í bleiuna.
Á mánudag og þriðjudag í þessari viku sofnaði hann bara alls ekki áður en hann fór í leikskólann, og þar svaf hann bara í hálftíma. Í gær tókst Finni að svæfa hann í fanginu um hádegisbilið og vakti hann svo klst síðar til að fara með hann á leikskólann. Sá litli var frekar aumur það sem eftir lifði dags… Í dag ákvað ég að prófa að nudda hann á meðan hann drakk mjólkina, og það var nóg til að hann slakaði aðeins á og sofnaði fyrir rest. Þegar hann var aaalveg að sofna fór hann reyndar allt í einu að mótmæla, en það var of seint! Múhahahahahaha!!
Eftir að ég hafði farið með hann á leikskólann, og borðað hádegismat þar, þá fór ég í ágætis göngutúr um nágrennið því það var alveg eðal-fínn dagur í dag. Klóraði í ritgerðarbakkann að venju, og vonast nú til að klára lagfæringar og viðbætur á kaflanum sem ég skilaði inn í byrjun mánaðarins á morgun. Þá ætla ég að snúa mér að hinum bakgrunnskaflanum áður en ég hætti mér í kjötið.