Kampusdagur
Ég mætti á kampus í hádeginu í dag til að hlýða á fyrirlestur eins úr rannsóknarhópnum. Þrátt fyrir fögur loforð um að ég ætlaði sko ekki að ílengjast á kampus, heldur fara snemma heim og vinna, þá skönglaðist ég ekki heim fyrr en um fimmleytið. Í millitíðinni rabbaði ég við fólk um heima og geima, færði til ónotaðan en nothæfan tölvubúnað á skrifstofunni og notaði risastóru ljósritunarvélina til að skanna kommentaða kaflann sem ég fékk í síðustu viku. Mér finnst það algjör snilld að ljósritunarvélin geti skannað inn stafla af lausum blöðum, jafnvel með prenti báðum megin, og sent manni afraksturinn í tölvupósti sem eitt pdf-skjal! 🙂
Það var fiskur í matinn (er “halibut” lúða?) og þegar krakkarnir voru komnir í háttinn fengum við okkur skammt af Daily Show. Það er ljós að snillingarnir þar eiga eftir að aðlagast nýrri stjórn, en það var áhugavert að sjá hvernig þeir klipptu saman ræður frá Bush og innsetningar-ræðu Obama. Maður heyrði þá vel að þeir nota í raun marga af sömu frösunum en samt hljómar það einhvern veginn betur frá Obama. Mikið er maður skrítinn í hausnum.
Í kvöldlok tókst mér loksins loksins loksins að pota síðustu myndunum frá Íslandsferðinni í maí 2008 á netið. Þær er að finna í efra vinstra horninu á þessari síðu. Smellið á Greinasafn til að fá yfirlit yfir öll herlegheitin. Á meðan er í manni dálítill uggur yfir “ástandinu” heima, og leitt að vita til þess að tveir lögreglumenn hafi slasast. Á sama tíma finn ég ekki miklar fréttir af því hvort einhver mótmælandinn hafi orðið illa úti, en það hlýtur eiginlega að vera. Vonandi róast menn og konur fyrr en síðar – þetta gengur ekki til lengdar.