Hóst, hóst, hóst, hóst, hóst, hóst…
Það kom sér heldur betur vel að hafa náð að klára fyrirlesturinn um Ísland í gærkvöldi. Ekki nóg með að ég færi seint að sofa, heldur var Bjarki órór í nótt, hóstandi og volandi, svo að það var ekki mikið sofið. Í morgun héldu hóstaköstin áfram svo og tilheyrandi spýjur þegar slímið festist í hálsinum á honum. Morguninn fór því í að sinna Bjarka en ekki snurfusa fyrirlestur.
Fyrirlesturinn gekk vel, enda auðvelt að sýna fallegar myndir frá Íslandi, fengnar að “láni” á netinu. Þegar ég kom heim aftur, heldur búin á því, þá var Bjarki nývaknaður. Sem betur fér hélt Bjarki hádegismatnum niðri og að honum loknun fórum við út í göngutúr í hitabylgjunni. Ég er á báðum áttum með hvort ég eigi að senda Bjarka á leikskólann á morgun. Hann var tæknilega hitalaus í allan dag, en á móti kemur að hann er örlítið tæpur með að halda niðri mat út af hósta/slími. Ætli það verði ekki bara að koma í ljós.
Í kvöld var svo foreldrafundur í bekknum hennar Önnu. Rúmlega helmingurinn af foreldrum mætti og það var talað um hitt og þetta. Það var ágætt að komast út úr húsi og eiga samskipti við fullorðið fólk, svona til tilbreytingar!