Hópfundur og spjall

2009-01-28Uncategorized Standard

Fór upp í skóla í hádeginu í til að hlusta á rannsóknarhóps-fyrirlestur um verkefni einnar sem er að nota radarmyndir til að greina landssig vegna pumpunar á vatni. Borðaði svo hádegismat með tveimur úr hópnum og spjallaði síðan vel og lengi við einn leiðbeinandann minn. Við fórum svolítið yfir farinn veg, nútíð og framtíð.

Ég er greinilega ekki andlega stöðugri en svo að ég kom heim í dálitlu kvíðakasti. Hvort það var eitthvað sem við ræddum í dag, eða leyfar frá gærdeginum og draum-leiðinlegri nótt veit ég ekki, en ég er greinilega ekki alveg jafn zen og ég þykist vera. Er að melta með mér hvort ég eigi að tala við ráðgjafa en veit ekki hvað ég myndi hafa upp úr því. Melti, melt. Kastið rann annars af með kvöldinu og nú þykist ég vera orðin öll betri og lofa sjálfri mér öllu fögru – eins og því að fara að sofa fyrir miðnætti. Tuttugu-og-sjö mínútur í það.

Veit ekki hversu sátt ég er við spjall dagins. Við hreinsuðum svolítið til í skápunum, enda hef ég haldið mér til hlés undanfarin tvö til þrjú ár og ekki leitað mikið til hans, sem hefur á móti valdið smá samskiptaleysi/bresti. Mér skilst meðal annars af honum að hann hafi álitið mig þunglynda, sem er nokkrum stigum dýpra en ég hef skilgreint sjálfa mig. Ég ákvað að leyfa því bara að fljúga, frekar en að fara að tala um stress og kvíða, enda nógu erfitt að vera kvenkyns í karlmannsheimi, en að maður fari ekki að setja timbur á “á-andlega-erfitt” eldinn.

Svo veit ég að honum er umhugað um mína framtíð, heilsu og almenna velferð, en það kom samt flatt upp á mig að þurfa að útskýra að ég sé ekki í megrun, sé ekki á leiðinni í megrun og borði almennt hollan mat. Ég ítrekaði hins vegar að ég sé byrjuð að stunda smávægilega líkamsrækt (göngutúra, æfingar heimavið í vinnuhléum) og það var greinlega skárra en ekkert. En þetta kom við viðkvæman stað á sálinni því ég veit að ég er ekki að eyða allt of mikilli orku í sjálfa mig – og ég er feit!

Þannig að ég er hugsi. Velti fyrir mér hvort ég eigi nokkurn tímann eftir að losna við “hún er kvenkyns og þar með andlega óstöðug”-stimpilinn eða hvort það skipti yfir höfuð máli. Velti fyrir mér hvort ég sé andlega óstöðugari en ég vil viðurkenna fyrir sjálfri mér. Velti fyrir mér hver forgangsröðunin í lífinu eigi að vera. Velti fyrir mér hvað ég vil verða þegar ég verð stór, uh, eldri. Hmmm…