Hjálp í nauðum
Pabbi Augusto lést á nýjársdag eftir nokkurra mánaða baráttu við krabbamein. Augusto flaug strax daginn eftir til mömmu sinnar en skildi Söruh og kvefaðan Jason eftir því þau gátu ekki ferðast með svona skömmum fyrirvara. Að bandarískum sið skipulögðum við vinirnir daglegar heimsóknir til Söruh með kvöldmat, en í morgun hafði hún samband við okkur eftir erfiða nótt (var með hita) og bað um að fá að dvelja hjá okkur í dag svo hún hefði aukahendur. Það var sjálfsagt mál, enda fer lítið fyrir litla manninum enn sem komið er. Það reyndi ekki mikið á aukahendurnar því þau náðu bæði að sofa ágætlega í dag. Í kvöld náði ég svo að svæfa litla mann á bringunni á mér og var stolt af. Finnur gaf mér á meðan illt auga enda með áhyggjur af öllu klingri í eggjastokkum. Sem stendur eru þeir afskaplega hljóðlátir, en maður veit aldrei ævina fyrr en öll er! 🙂
Í öðrum fréttum þá fór ég inn á kampus í dag til að endurnýja bókasafnsbækur og afhenti í leiðinni prófessornum mínum fyrsta uppkast að kafla tvö. Kaflinn atarna er stuttur, en einhvers staðar verður maður að byrja. Verst er að þetta er líklega einfaldasti kaflinn tæknilega séð og frekari skriftir eiga örugglega eftir að taka laaangan tíma.
Í dag eru víst jólalok, en ég er búin að ákveða að láta jólaskrautið hanga uppi í einhvern tíma í viðbót. Við vorum að heiman í 11 daga yfir hátíðarnar svo að það er ennþá pláss fyrir jólskaut í sálinni. Þess fyrir utan fengum við svo mörg kort á meðan við vorum í burtu og þau verða að fá að hanga upp á vegg í einhvern tíma. Ég verð nú bara að segja að mikið eru börn skyldmenna okkar og vina bráðfalleg og myndarleg!! 🙂
p.s. Kommentakerfið er komið aftur í gang, og ég bendi á að það eru komnar nokkrar “nýjar” myndavefsíður hérna vinstra megin.