Efnahagurinn styrktur
Við Anna fórum og styrktum efnahag landsins, það er, við fórum að versla föt og skó. Ég hafði fengið þennan fína afsláttarmiða í Carters frá nágrannakonu okkar og því var ekki annað hægt en að bregða sér þangað. Síðan fann ég enn eina skóna á Önnu (sem étur skó í morgunmat) og notaði tækifærið og keypti fyrstu skóna hans Bjarka. Þegar heim var komið vildi Bjarki ekkert með skóna gera, og vildi losna við þá af fótunum sem allra fyrst. Minnti hann þar á stóru systur sem var marga mánuði að taka sína fyrstu skó í sátt.
Við buðum fjölskyldu Lulu í kvöldmat sem Finnur eldaði. Áttum góða (þó ekkert sérstaklega hljóðláta) stund saman og öll getum við varla beðið eftir forsetaskiptum morgundagsins.
Í leiðinlegri fréttum þá fæddi systir vinar okkar fyrirbura barn í dag – strák sem vantaði líklega einn eða tvo daga upp á 26 vikur, eins og okkar. Ég er því búin að vera að miðla af minni reynslu sem hefur þyrlað upp minningum. Minningarnar eru ekkert endilega slæmar, en maður verður þreyttur bara á að leiða hugann af hinni (vonandi) löngu leið sem þau eiga frammi fyrir höndum. Stundum er ágætt að vita ekkert í hvað maður er búinn að koma sér…