Árið 2008 – yfirlit
Hér kemur yfirlit yfir árið 2008, sundurliðað eftir mánuðum 🙂
Janúar
Við héldum upp á afmæli Önnu, Hrefna skipti um prófessor, Bjarki fór að fá fasta fæðu (grauta) og Finnur prófaði kartöfluflögur með kjúklingabragði.
Febrúar
Við fluttum okkur um set á kampus, fórum úr 2ja svefnherbergja íbúð í 3ja svefnherbergja íbúð í nýjum bakgarði. Íbúðin var þess fyrir utan alveg eins þó spegluð væri.
Mars
Við fórum í Cirque de Soleil. Anna lærði að hjóla án hjálparadekkja.
Apríl
Bjarki byrjaði á Gúgul leikskólanum. Adda, Halli og Hildur Sif komu í heimsókn til okkar frá Íslandi en með þeim kom flensa sem lagði okkur eitt af öðru öll í rúmið. Góðir vinir héldu sem betur fer áfram að vera góðir vinir þótt fárveikir væru. 🙂
Maí
Þriggja vikna Íslandsferð!! Hittum fjölskylduna og vini, og Gunnar pabbi og Anthony komu meiri að segja frá Englandi til að segja hæ. Glöddumst yfir stúdentsútskrift Nökkva og vorum sérstaklega heppin með veður.
Júní
Anna Sólrún byrjaði í sama Gúgul leikskóla og Bjarki og gekk rosalega vel. Fluttum af kampus til Mountain View í göngufjarlægð við leikskólann og hjólafjarlægð við Gúgul. Við keyptum nýja myndavél, Bjarki fékk fyrstu tennurnar, fór að ormast um gólfið og átti eins árs afmæli. Finnur náði að koma Íslandi inn í kortagerðarkerfi Gúgul.
Júlí
Augusto og Sarah keyptu sér hús og Hrefna sannfærði þau um að mála það sjálf að innan. Það fóru nokkrir dagar í það… Bjarki lærði að setjast sjálfur upp, Anna uppgötvaði fjörið við að biðja um eitthvað “nýtt” alltaf og leikskólapestir herjuðu á okkur öll.
Ágúst
Við lifðum af þriggja daga starfsdagalokun á leikskólanum með því að heimsækja Oakland dýragarðinn, Exploratorium vísindasafnið og Santa Cruz stöndina, eitt per dag. Þurftum frí eftir það frí!
September
Krómið sem Finnur vinnur að kom út. Við keyptum ofur-hjólakerru. Kláruðum loksins frosnu brjóstamjólkina – það tók bara ár! Bjarki fór að skríða “almennilega”. Anna þurfti að venjast nýjum kennurum og nýjum bekkjarfélögum.
Október
Fjármálaheimurinn fór í rugl og við fylgdumst með úr fjarska. Hrefna ákvað og fékk grænt ljós á að verja doktorsverkefnið sitt í byrjun nóvember. Anna lærði að kafa niður á botn á sundlauginni og Bjarki fór að standa upp við hluti.
Nóvember
Obama vann! Hrefna varði doktorsverkefnið sitt og stressið minnkaði. Hrefna og Katie fóru í leikhús, krakkarnir fengu jólaföt og Augusto og Sarah eignuðust soninn Jason.
Desember
Við fórum á okkar fyrsta jólaball hérna úti. Áttum indæl jól. Flugum til San Diego og fórum í þrjá skemmtigarða á þremur dögum. Slöppuðum af hjá Gunnhildi og Jóni í LA yfir áramótin.