Aftur til læknis
Bjarki vaknaði í morgun með 38.4 stiga hita svo þar með var úti um alla leikskóladrauma. Ekki nóg með það heldur andaði hann heldur hratt og grunnt, sem er eitthvað sem læknirinn hans hefur oft sagt að sé slæmt merki. Eftir að hann hafði náð að hósta upp næturslíminu hresstist hann hins vegar við og var bara nokkuð kátur að leika með stóru systur.
Orkukastið var þó ekki langlíft og ég fór með hann upp að lúra aðeins fyrr en venjulega. Eftir nokkra sopa af mjólk kom enn eitt hóstakastið sem endaði í að hann ældi ágætis sýnishorni af morgumatnum (hafragrautur!) yfir okkur bæði. Gaman! Hann vaknaði síðan aftur frekar aumur svo að ég ákvað að panta tíma hjá lækni, frekar en að bíða fram á næsta dag. Svoldið paranojd móðir, en það verður að hafa það.
Hjá lækninum var sett mæligræja á stóru tána hans Bjarka til að mæla hversu vel blóðið var mettað af súrefni. Bjarki mældist bara með 93% súrefnismettun (venjulega mælist hann með 98%, flestir aðrir eru með 100%) og því ljóst að ekki var alveg allt með felldu. Læknirinn hlustaði á lungun hans og sagði að það hljómaði eins og að hann þyrfti að hósta rækilega. Hún stakk upp á því að prófa astma-meðferð og sjá hvort það hjálpaði eitthvað.
Ég hélt því vélknúinni pústgræju rétt við munninn á Bjarka í líklega 5 mínútur eða svo. Græjan gaf frá sér albuterol úða og Bjarki mátti leika með hana og stinga stútnum upp í sig svo þetta gekk ágætlega – eða þar til hann var kominn með nóg og reyndi að ýta græjunni frá sér. Þegar móðirin þrjóskaðist á móti þá varð hann fúll og vældi sem var víst fínt því maður andar svo djúpt þegar maður vælir að lyfið kemst vel inn í lungun.
Ekki skánaði súrefnismettunin við meðferðina svo læknirinn ákvað að það væri til lítils að senda hann heim með astmalyf. Hún taldi að Bjarki væri með bronchiolitis, að öllum líkindum RS vírusinn, sem hann var varinn gegn í fyrra með sprautum. Það er því lítið að gera nema bíða bara og vona að hann komist yfir þetta sem fyrst.
Við eigum samt að hafa augun opin fyrir háum hita, fleiri hraðöndunarköstum og merkjum um að hann sé orðinn þreyttur að anda. Svo var okkur ráðlagt að fara með hann í heita sturtu til að losa um slímið, og nota rakavél, eins og við gerum. Hún sagði að hann liti of vel út til að hún færi að senda hann upp á spítala, en gaf í skyn að súrefnismettunin væri ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Við náðum að lúra aðeins þegar heim var komið, og Bjarki var bara í fínu formi eftir lúrinn. Vonandi fer hann að hrista þetta af sér því mitt litla sálartetur er u.þ.b. búið á því. Ekki nóg með að ég verði almennt úttauguð þegar Bjarki er veikur, heldur hjálpar ekki til að vera föst heima meiripart dags. Maður verður svolítið skrítinn í hausnum þegar maður hittir ekki fullorðið fólk heilu og hálfu dagana!
Ekki mikið annað að frétta fyrir utan að framundan er þriggja daga helgi – og við ekki búin að skipuleggja eitt einasta plei-deit! Íííík!