Þrjósk (eyrnabólga)
Um miðnætti í gær kom í ljós að Bjarki var orðinn vel stíflaður af kvefi. Stuttu síðar fór hann að bera sig aumlega og þá var gripið í tylenolið. Í morgun fór ég svo með hann til læknis því hún hafði beðið mig um að koma með hann til að athuga statusinn á eyrunum eftir síðasta sýklalyfjaskammt. Við skoðun kom í ljós að hann er ennþá með eyrnabólgu í báðum eyrun, og að öllum líkindum hefur hún aldrei farið – bara versnað snögglega við kvefið. Hann var því settur á nýjan 10 daga lyfjaskammt, og á að mæta aftur eftir tvær vikur. Eftir ágætis morgunlúr (og meiri verkjalyf) þá fór ég með hann á leikskólann, þar sem hann átti víst bara góðan dag.
Það gerðist ekki meira mikið markvert í dag. Eitt greip þó athygli mína. Anna Sólrún valdi sér kiwi í eftirrétt í kvöld (hér er haldið uppi harðri ávöxt-í-eftirrétt stefnu) svo Finnur skar eitt svoleiðis í tvennt og rétti henni ásamt skeið. Anna Sólrún mótmælti strax að þetta væri “vitlaus skeið” og fór samstundis að hnífaparaskúffunni. Þar rótaði hún um í góða stund, grandskoðaði nokkrar skeiðar (þær eru ekki allar eins) og kom svo til baka með hina útvöldu skeið.
Það sem vakti athygli mína var: Anna vill nota ákveðin verkfæri til að gera ákveðna hluti, hún veit hvaða verkfæri eru til og hún er ekki tilbúin að víkja frá sinni fyrirfram mynduðu hugmynd um hvernig hún vill gera eitthvað bara af því að það er auðveldara. Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem hún mótmælir hnífaparavali okkar, og við erum löngu búin að læra að það er langbest að leyfa henni að velja þau áhöld sem hún vill. Veit ekki hvað skal kalla þetta, en ég veit upp á mig sökina (eigum við að ræða um hnífa og skurðarbretti? 🙂 og því yppir maður öxlum. Gaman að þessu samt.