Smá uppfærsla…
Eftir að hafa skutlað Jóni á lestarstöðina og klárað matarinnkaupin fórum við öll á ströndina í nágrenninu og horfðum á selina flatmaga á ströndinni og sólarlagið setjast yfir Kyrrahafinu. Afskaplega rómó… alveg þangað til heimasætunni fór að leiðast þófið sökum kulda og trekks og sagði hálf skúffuð:
“Hverjum *datt* þetta í hugmynd? Það er kuldalegt hérna í nótt!”
🙂
Við skildum fyrr en skall í tönnum og héldum aftur í hlýjuna í bílnum og fórum að leita að stað til að borða kvöldmat á.
Hrefnu langaði í steikhús en við guggnuðum á steikhúsinu sem við fundum því við, flíspeysugengið, sáum gestina ganga inn í sínu fínasta pússi. Lágmarksverðið á matseðlinum var líka tvöfalt meira en *meðal*-verð annars staðar þannig að við héldum áfram að leita. Kreppa, sko – alltaf að spara. 🙂 Okkur mistókst hrapallega að finna veitingastað og enduðum á því að ganga um eitt úti-mollið þangað til við hrökkluðumst inn á kúbverskan grillstað (aðframkomin af kulda, hungri og þreytu) nema hvað allir fjölskyldumeðlimirnir (nema ég) enduðu á að púa á matinn sem þeir fengu (bbq rifin sem ég fékk reyndust bara ágæt – veit ekki hvað þau voru að kvarta). 😉 Við ætlum að reyna að gera betur næst. Og reyna að vera skipulagðari. 🙂
Og já, að lokum… Vefþjónninn er enn í rugli og þarf að ríbúta honum en enginn á skrifstofunni hefur hlýtt kalli Hrefnu að gera hlé á jólafríinu sínu og mæta í vinnuna til að aumka sig yfir honum. 😉 En ég tók mig til og slökkti á kommentakerfinu tímabundið (eins og sjá má, þegar þetta er skrifað) þannig að allt annað á að vera virkt. Það er því ekki lengur bara nýjasta færslan sýnileg. En hvað um það, kominn tími til að fara að sofa. Dýragarðurinn á morgun.