Sæheimur
Við vöknuðum snemma í dag til að fara í Sæheim í Heilögum Díegobæ. Við mættum um hálftíma eftir opnun (opnar 9:00) og gátum notið garðsins um morguninn án mannmergðar, svona þangað til kl. 2 eh. þegar garðurinn fylltist algjörlega.
Mestu athygli vöktu háhyrningarnir sem léku listir sínar fyrir fullu húsi og skvettu á fólk á fremsta bekk. Önnu fannst það ógeðslega fyndið en við vorum í öruggri fjarlægð. Hún var alveg hugfangin af þeim, sem og hinum sýningaratriðunum (höfrungunum, selunum og fl.) og fannst mjög gaman að fá að gefa höfrungunum og skötunum að borða.
Við gerum kannski nánari grein fyrir þessu síðar með myndum og öllu en við skemmtum okkur öll mjög vel – svona þangað til í lokin þegar Anna fékk að fara í risastóra klifurgrind og týndist vel og rækilega. Hún rataði þó til gæslumanna á svæðinu sem komu henni fyrir í “tapaðir-fundnir-krakkar”-deildinni, þar sem hún sat og pússlaði þangað til áhyggjufullir foreldrar fundu hana. Hún tók þessu með ró og vildi að sjálfsögðu ekki fara fyrr en hún væri búin með pússlið. 🙂
Um kvöldið fórum við svo á mjög góðan ítalskan stað, Piatti, þar sem við borðuðum á okkur gat og gætum alveg hugsað okkur að prófa aftur – ef við heimsækjum þennan bæjarhluta aftur.