Ó, ég hlýt að geta bullað um eitthvað…!
Það er lítið um blogg þessa dagana. Ég held að það sé af því að lífið er fallið í fastar skorður á ný og ekki mikið spennandi að gerast. Ef ég týni til það helsta þá fór Finnur í bakinu um helgina og er ennþá hálf-ónýtur. Það þýðir að hann keyrir í vinnuna (í staðinn fyrir að hjóla) og að ég hef tekið að mér alla partana í hinum daglega “elda”-“ná í krakkana”-“taka til eftir matinn” þríleik. Yfirleitt sleppur sá sem eldar við parta 2 og 3 enda þríleikurinn full stór pakki í heild sinni, sérstaklega til langs tíma.
Sem betur fer getur hann ennþá svæft Önnu og það skiptir öllu. Hennar svefnrútína er hálfgerð leikhúsuppfærsla. Það þarf að pissa og tannbursta. Síðan velur hún náttföt og fer í þau (yfirleitt með miklu rúm-hoppi). Síðan velur hún bók sem á að lesa fyrir hana, svo og bækur sem hún ætlar að lesa sjálf á eftir. Því næst er lesin bók, síðan sungin þrjú lög (yfirleitt úr Vísnabókinni og hún velur lag 1 og 3) áður en hún fær koss og er skilin eftir í hálf-myrkru herbergi. Á góðum kvöldum les hún og sofnar sjálf, stundum biður hún um að við “tökum bækurnar og klórum bakið” og svo sofnar hún sjálf og stundum fer allt í háa loft með endalausum kröfum og þá eru þúsund ferðir upp á efri hæð og allir pirraðir.
Sem stendur þarf ekkert að “svæfa” Bjarka, hann er bara settur í náttföt, í rúmið, ljósið slökkt, svo gengið út og lokað á eftir. Við heyrum hann spjalla við sjálfan sig í hlustunartækinu en hann er yfirleitt sofnaður á fimm mínútum. Svona er maður kræfur með barn númer 2! 🙂
Bjarki er hins vegar að prófa sig áfram með nýja hluti. Hann hermir eftir okkur “abbú” fyrir “allt búið” og gott ef hann sagði ekki “Anna” um daginn. Hann er líka farinn að stinga skeiðinni sinni ofan í hafragrautinn og svo upp í munn og gott ef hann hélt ekki sjálfur líka á venjulegu plastglasi um daginn og fékk sér mjólk að drekka. Hins vegar virðist hann vera lítið að flýta sér að læra að ganga. Hann er snöggur að ganga með fram húsgögnum, og hann getur ýtt hlutum á undan sér og “gengið” en það ber ekkert á því að hann sé að æfa sig að standa óstuddur eins og Anna gerði. Hann virðist hreinlega vera of sáttur við að skríða sem stendur, en við sjáum hvað setur!