Jólaball!
Í dag fórum við á árlegt jólaball Íslendingafélagsins, eða “jólaball-a” eins og Anna Sólrún heimtaði að kalla það eftir að hún heyrði nýyrði dagsins. Þetta var okkar fyrsta ferð á jólaballið, því undanfarin ár höfum við annað hvort verið í sóttkví, eða á haus við að undirbúa Íslandsferð o.s.frv. o.s.frv. Hvað um það, í ár ákváðum við að skella okkur og ég eyddi sein-morgninum í að baka pönnukökur (ókeypis inn fyrir krakkana ef maður mætir með eftirrétt) sem gekk svona upp og ofan. Önnu leist vel á ófarirnar, því hún fékk að borða “skrítnu” pönnukökurnar.
Þegar við mættum á ballið rákumst við strax á fólk sem við þekktum: Huldu, Gulla og börn, svo og Siggu, Maríó og Kötlu. Eftir að hafa sporðrennt pylsum (því miður ekki SS) þá fór Anna að skreyta piparkökur á meðan Finnur passaði að Bjarki æddi ekki í jólatréið. Eftir kökuát var gengið í kringum jólatréið þar sem það rann upp fyrir mér að við höfðum alveg gleymt að kenna Önnu jólalög, en hún lét sig hafa það. Í miðjum klíðum kom jólasveinninn og hann gaf öllum krökkunum gjafir. Síðan var gengið meira í kringum jólatréið (hvað er þetta með einiberjarunnann og þvottinn?!?) áður en þetta leystist upp í almennt spjall.
Anna hjá jólasveininum. Henni brá örlítið þegar
hann spurði hana með nafni hvort hún væri búin að vera þæg…
Við hjónakornin vorum svo heldur betur dugleg í kvöld þegar krakkarnir voru farnir að sofna. Ég lagðist í jólakortaskriftir og Finnur fór í gegnum og flokkaði bókhaldið fyrir árið. Nú er bara að vona að síðustu pakkarnir sem eiga að fara til Íslands skili sér í póstinum á morgun því ég stefni á pósthússferð á morgun. Af hverju er maður alltaf á síðustu stundu með þetta??!