Hvað er aðlaðandi? Áhugavert?
Jóla-jóla
Heil vika þotin hjá, trúi því varla að jólin séu í næstu viku!! Okkur tókst að skella upp jólaskrauti um helgina og skreyttum meiri að segja litla lifandi jólatréið. Eftir þá lífsraun veit ég að lifandi blágreni STINGA! Áix12 segi ég bara eftir jólakúlurnar tólf.
Svo bökuðum við Anna eina smákökutegund (súkkulaðibitaköku-uppskrift frá því í fyrra), skutluðumst í búðarferð og keyptum rúðuþurrkur á bílinn því það hefur ekki rignt síðan í maí og gúmmíið orðið ónýtt. Anna var alveg gapandi yfir jólaskrautinu, og ég er ekki viss hvað gerist þegar það verður tekið niður.
Krakkarnir
Af krökkunum er það að frétta að Bjarki er aaaalveg að fá jaxl í neðri góm en gómurinn neitar að hleypa honum í gegn um sig. Hann er farinn að herma svolítið eftir því sem við segjum, og mig grunar að hann sé stundum að reyna að tala (dudda!) en ég er samt aldrei alveg viss.
Anna Sólrún er að fikra sig áfram í heiminum og stendur uppi í hárinu á kennurunum sínum. Það er ekki ólíkt móður hennar sem mætti galvösk með Walkman (ferðakassettutæki + heyrnatól) í lok 12 ára bekks og hlustaði á hann þegar við vorum að gera verkefni. Ég trúi því ekki enn í dag að ég hafi komist upp með þvílíka ósvífni!
Ah, ég þarf að skrifa niður nokkrar skemmtisögur af Önnu af leikskólanum áður en ég gleymi þeim. Flestar sögurnar eru til komnar af því að Anna er ein af kannski tveimur krökkum sem eru hætt að sofa eftir hádegi á leikskólanum, og henni hundleiðist því í hvílutímanum. Oftar en ekki hefur hún verið með læti, gól og ýl, og það er búið að reyna margar leiðir til að hafa ofan af fyrir henni. Sem stendur er hún á þeim sér-samning að ef hún er róleg á meðan allir hinir sofna, þá má hún fara yfir í “lista-stúdíóið” og föndra þar. Sem stendur er hún að búa til mikið víra-listaverk og vonandi næ ég að taka af því mynd bráðum.
Hvað um það. Hér koma þrjú dæmi:
a) Eftir vörnina flutti ég úr svefnherberginu hennar Önnu aftur í hjónaherbergið (þar sem Bjarki sefur), enda ekki lengur þörf á eins góðum svefni. Ein kennslukonan vissi af þessu og ætlaði að athuga hvort að Anna þyrfti einhvern til að liggja hjá sér svo hún gæti hvílt sig. Kennarinn náði í dýnu og teppi og lagðist niður hjá Önnu sem vissi ekki alveg hvaðan á hana stóð veðrið.
Anna spurði kennarann hvað hún væri eiginlega að gera. Kennarinn sagði að hún væri að hvíla sig með henni, og þá tók Anna upp á því að laga teppið hennar. Eftir smá stund heyrist í Önnu: “Liz, þú átt aldrei eftir að sofna ef þú heldur áfram að blikka augunum svona.” Þar með gafst Liz upp og Anna vann þá atlögu. 🙂
b) Anna Sólrún var búin að vera með mikið múður, kallaði einn kennarann “mean” og þar fram eftir götunum (já, það byrjar snemma). Eftir mikið japl jaml og fuður, kom að því að tala um hvað Anna vildi gera eftir lúrin og snarlið. Þá heyrist í Önnu “Ég ætla að gera ekkert.” Kennarinn lét hana standa við stóru orðin og hún fékk að húka uppi á sófa þar sem hún lýsti því yfir að það væri leiðinlegt að gera ekkert. Nokkrum mínútum síðar var hún sofnuð…
c) Þrír krakkar voru að leika mömmu/pabba/litla barnið leik þegar Önnu drífur að. Litla barnið er vafið inn í mörg teppi, eins og gengur og gerist. Anna byrjar strax að skipa fyrir og sem part af því hrópar hún á teppahrúguna af öllum krafti. Einn kennarinn tekur hana til hliðar og biður hana að hrópa ekki svona á litla barnið. Kennarinn segir við Önnu: “Þú átt ekki að hrópa á lítil börn, myndirðu hrópa svona á litla bróður þinn?” Anna svarar “Ég myndi gera það ef hann heyrði ekki neitt.”
Áhuga-pælingar
Ég tók mig til og datt inn í nýja sjónvarpsseríu í síðustu viku. Í þetta sinn var Heroes fyrir valinu því aldrei þessu vant var alla þættina að finna löglega á Netflix Instant Watch (það er á netinu). Ég sökk hratt og vel inn í þann heim, vakti tvær nætur í röð til fjögur og kláraði fyrstu seríu (23 þættir, 43 mín á lengd) á þremur dögum.
Þáttaröðin fór hins vegar hratt niður á við í næstu seríu, og hægt og rólega fór ég að hraðspóla í gegnum þættina. Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta þáttaröð um fólk með ofurhetju-hæfileika. Það koma margar sögupersónur við sögu, en oft tengjast þær lítið svo að hver þáttur er eins og samansafn af nokkrum sögum. Þar sem ég hraðspólaði (eða hrað-smellti) þá tók ég eftir því að ég hafði mestan áhuga á einni sögunni, eða öllu heldur einni söguhetjunni, sem síðar leiddi til áhuga á leikaranum sjálfum.
Þá fór ég að velta fyrir mér – hvað er það sem veldur því að maður fær áhuga á einhverju/einhverjum? Hvað er það sem kallar til manns og segir “vó, sjáðu mig?”. Það sem meira er þá gerðist eitthvað mjög svipað þegar ég horfði á Doctor Who – sagan, svo söguhetjan, svo leikarinn. Það sem kom mér hins vegar á óvart var að þar sem ég bar saman þessa tvo leikara sem mér fannst áhugaverðir komst ég að því að þeir áttu margt sameiginlegt.
Hvernig stendur á því að hausinn á mér pikkar út fólk með ákveðna eiginleika og merkir það með “check this out”? Hvernig stendur á því að sumt fólk talar til manns, en ekki annað? Af hverju valdi ég John Taylor frekar en Simon Le Bon á sínum tíma? Eru ákveðnar grunntegundir stimplaðar inn í hausinn á fólki? Breytist smekkur manns eða mun ég að eilífu amen fá ping í hausinn frá sams konar fólki? Eða er þetta bara eitthvað skemmtibransa-trikk? Hmmm…