Bíði, bíði…
Sit fyrir framan tölvuna hérna uppi og er að bíða eftir að Bjarki vakni af hádegisblundinum sínum. Hann ætti að vakna bráðum en þar sem ég er búin að afgreiða flesta tölvupóstana mína og búin að lesa fréttavefsíður og blogg og nenni ekki að reyna að einbeita mér að “vinnu” þá er kannski best að blogga mitt eigið blogg! 🙂
Í gær var þungu fargi af stofugólfinu/mér létt því að ég klárði að pakka inn 95% af jólagjöfunum til Íslands (og Englands). Síðustu 5% eru ekki komin í hús enn, voru pöntuð seint. Ég er nefnilega amazon.com kona, með Prime reikning (borgaði $72 í upphafi árs til að fá “ókeypis” tveggja-daga heimsendingu í ár) og allt, og á okkar heimili koma því gjafir töfrum líkast í pósti… enda bara “brjálæðingar” sem versla í alvöru búðum… hehe 😉
Það rann upp fyrir mér í gær að undanfarna daga hef ég HANDSKRIFAÐ óvenju mikið. Ekki nóg með að hafa sett saman jólakort (eða “monta-sig-af-fallegu-börnunun-sínum” kort) heldur fylgdi jólagjöfunum sjálfum mikið skrifræði. Ekki nóg með að maður þurfi að merkja gjöfina. Það þarf líka að skrifa heimilisfangið utan á (ég varð ekkert smá glöð þegar ég fann límmiða með heimilisfanginu okkar á sem fylgdi einhverju betli-bréfinu) svo og fylla út bansetta toll-miðann.
Á tollmiðann þarf nefnilega að skrifa heimlisfang mitt svo og móttakandans AFTUR – svo ekki sé minnst á innihald pakkans og hvað það kostar – sem er nú alveg út í hött þegar kemur að jólagjöfum, en ég læt til leiðast svo að íslenski tollurinn fái ekki flog og rífi allt upp.
Ég keyrði svo með herlegheitin í stórum kassa á pósthúsið í gær og borgaði hálfan handlegg (rúmlega $200 dollara) í burðargjald. Ég hugga mig við að það er talsvert minna en flugfargjaldið heim og bara okkar skattur fyrir að vera að vandalast hérna úti. Ég gleymi því heldur ekki að allir þeir sem senda okkur gjafir fyrir jólin (kærar þakkir fyrir það!!) þurfa að borga ennþá stífari burðargjöld, og þar við situr.
Pósthúsferðin gekk ótrúlega vel, var bara hálftíma þar inni, svo að ég hafði óvænt tíma til að kaupa lítið jólatré. Fyrir valinu varð lifandi blágreni (?) í potti, því mér þykir svo leiðinlegt þegar jólatréin “deyja”… Ég get svo svarið það, allar þessa Disney myndir hafa orðið til þess að ég get ekki gert neinum flugumein…!! En ó, nú er Bjarki vaknaður og botna ég því bloggið í bili! 🙂