Komin með varnar-dagsetningu
Það er það klappað og klárt: Ég mun verja doktorsverkefnið mitt “Modeling the Martian Surface Using Bistatic Radar at High Incidence Angles föstudaginn 7. nóvember frá klukkan 14:30-17:30. Í þessu felst að ég mun halda 45 mín “almennan” fyrirlestur um verkefnið mitt, eftir það er opnað fyrir spurningar frá þeim sem sitja í salnum. Að þeim loknum þá er 5 mínútna hlé og svo verð ég yfirheyrð af varnarnefndinni minni, sem samanstendur af fjórum kennurum, eins lengi og þeir vilja en ekki lengur en til 17:30. Að því loknu ákveða þeir örlög mín.
Þar sem að ég er búin að fá grænt ljós á vörnina, þá er afskaplega ólíklegt að ég verði felld – það hefur víst gerst einu sinni eða svo síðustu tuttugu árin. Þetta er því að mestu leyti formsatriði, en samt afskaplega mikilvægt formsatriði. Að því loknu þarf ég svo að setjast niður og SKRIFA doktorsritgerðina, sem á eftir að taka einhverja mánuði. En þetta er amk vonandi skref í rétta átt.
Fyrirlesturinn í síðustu viku var svona æfingar-varnar-fyrirlestur og ég fékk fullt af góðum athugasemdum. Núna sit ég sveitt og reyni að laga fyrirlesturinn, nema hvað að það er ennþá svo langt í þetta að það er erfitt að panikka nóg til að vera mjög afkastamikil (ég er algjör deadline-manneskja). Helst vildi ég vera niðri núna að horfa á nýju Doctor Who þættina mína… aftur. 🙂