Fjör í rimlarúminu
Ég er að hætta með Bjarka á brjósti þessa dagana og er núna komin niður í tvær gjafir á dag – eftir kvöldmat og svo í morgunsárið. Hingað til hef ég gefið honum að drekka fyrir morgunlúrinn sinn og það hefur alveg snarslökkt á honum. Nú er búið að loka fyrir spenann og þá eru góð ráð dýr um hvernig á að svæfa drenginn.
Í síðustu viku gekk sæmilega að gefa honum smá mjólkurpela, leggja hann niður í rimlarúmið og fara svo út. Í gær byrjaði þetta að vera meira bras en hann sofnaði þó að lokum eftir að ég tók hann upp úr rimlarúminu, dúðaði hann í sæng og hélt á honum í rúminu. Í dag hefur hins vegar ekkert gengið. Hann er búinn að vera í rúminu sínu núna í eina og hálf klukkustund og finnst það bara GAMAN.
Ég hef farið inn og lagt hann niður á ca. 10 mín fresti, en hann sest jafnhraðan upp aftur um leið og ég fer út úr herberginu. Ég skal viðurkenna að ég er búin að vera að bíða eftir því að hann fari að gráta, því þá er mótstaðan að fara niður á við, en hann bara spjallar og spjallar og hristir rúmið og lemur í veginn (þar til ég færði rúmið) o.s.frv. o.s.frv.
Hvað um það, ef áfram heldur sem horfir þá verð ég að fara með hann ósofinn á leikskólann og það verður líklega skrautlegt því hann hefur ekki sofið þar í margar vikur. En hmmm… mér heyrist hann vera farinn að kvarta núna. Sjáum hvað setur…