Dóh! Soghljóð! [uppfært]
Uppfærsla: Sökum umkvörtunar um miður fallegt orðafar þá hefur þessi póstur verið örlítið endurumorðaður frá því í gærkvöldi…
Andsk… helv… djö… Uh… Þvílík og önnur eins ósköp þetta Netflix Instant Watch! Undanfarin ár hef ég endrum og eins rekist á Doctor Who þætti í sjónvarpinu, og aldrei skilið hvað í ósköpunum er í gangi. Ég hafði samt “heyrt” út undan mér að það væri eitthvað varið í nýjustu seríurnar en þó gaf ég þáttunum aldrei meiri séns en 5 min í einu.
Það var þar til í fyrrakvöld. Þá var ég á flakki um Netflix-heima, en Netflix er risastór vídeóleiga á netinu sem maður borgar áskrift að á móti því að fá senda heim til sín x marga DVD diska í einu í pósti (snilld!). Þegar maður sendir DVD disk til baka, þá er næsti diskur á listanum manns sendur út o.s.frv. o.s.frv…
Á Netflix vefsíðunni er hins vegar líka hægt að horfa beint á talsvert efni – algjörlega án auglýsinga sem er ææææðislegt (ofur-snilld!!). Eini gallinn er að úrvalið er heldur takmarkað því að þeir vilja ekki minnka DVD-partinn af fyrirtækinu of mikið. Þarna er helst að finna gamalt efni, til dæmis gamlar BBC útgáfur af Jane Austen svo eitthvað sé nefnt.
Það var því ekki um mjög auðugan garð að gresja í fyrrakvöld þegar heilinn á mér fór í veruleikaflótta-ham eftir rannsóknarhóps-fyrirlesturinn fyrr um daginn. Ekki það að fyrirlesturinn hafi gengið neitt illa, heldur bara þörf á að hugsa um eitthvað annað. Ég var ekki í skapi fyrir rómantískt sull (vitlaus staður á hormónahringekjunni) og alls ekki í skapi fyrir auglýsingar, svo að Hulu kom ekki til greina.
Þannig að ég ákvað að gefa Doctor Who séns… og andsk… hafi það það verður að viðurkennast að þetta eru góðir þættir – spennandi, vel skrifaðir, áhugaverðir, öðruvísi, og alls ekki blóðugir eða viðbjóðslegir þó svo að fullt af fólki deyi í svo til hverjum þætti!!! Argh!! Ó, nei! HVÍ?!? Ég er því búin að gleypa í mig þrettán 45 mín þætti núna á þremur kvöldum og er stopp núna því að ég er búin með alla þættina sem eru á “instant watch” síðunni. Það er víst bara ok að netvarpa fyrsta “nýja” lækninum en ekki þeim sem tók við þegar hann dó (hei, þetta er sci-fi!!). En það er víst lítið að gera nema að bíða þolinmóð eftir næsta DVD-disk, en hann á ekki eftir að koma fyrr en á mánudaginn. Ó, kvölin að þurfa að vera “þolinmóð”. Urgh! En það reddast! 🙂