Allt í hers höndum!
Það virðist allt vera að fara til andskotans út um allt. Alveg merkilegt alveg. Nú getum við unglömbin sem lifum núna talað um “kreppuna 2008” þegar við verðum eldri og hrukkóttari. Vííí! Hef verið að fylgjast með þessum með öðru auganu samt því að ég er búin að lofa upp í ermina á mér enn einum hóp-fundar-fyrirlestrinum, og hann á að vera núna á miðvikudaginn. Svitn, svitn. Vildi samt bara benda á þátt sem ég heyrði í útvarpinu, þar sem farið er í saumana á parti af fjármálasukkinu á afskaplega skiljanlegan hátt. Þessi þáttur (This American Life) er oft annars algjör snilld – og alveg sér á parti í útvarpsheiminum hérna úti.
Annars mæli ég líka með
Wait, Wait… Don’t Tell Me
Prairie Home Companion
Car Talk
On The Media (stundum svoldið depressíng)
Radio Lab
Fresh Air
… og öllum þessum þáttum er pod-kastað.
Svo vil ég deila með ykkur eftirfarandi minningu: Ég sit á gólfinu með bakið upp við vegg alveg upp við einn bókarekkann í bókabúð í Palo Alto. Á lærunum er ég með fartölvuna mína og ég er að reyna að klambra saman fyrirlestri. Á bókarekkanum vinstra megin við mig er sáluhjálpar-deildin, sem virðist samanstanda aðallega af bókum eftir Joice Meyer, sem ég skal viðurkenna að hafa horft og hlustað á endum og eins á Omega forðum daga í algjörum leiðindum mínum, sem var greinilega áður en hún varð kreisí rík. Hún stóð út úr bókaflórunni því að hún virðist vera sú eina sem setur mynd af sér á kjölinn á bókunum sínum.
Hinum megin við bókarekkan heyri ég í tveimur strákguttum sem eru að spila einhvern vampíru/zombí/ekki-guðlegan tölvuleik á lítilli Nintendo leikjatölvu. “Nei, það er ekki hægt að borða rottur…”, “Heh, maður er ekki með Health heldur Unhealth, af því að maður er un-dead”… “Mér finnst best að nota þennan karakter því hún drepur svona og svona, en þennan þegar ég vil drepa svona og svona…” og þar fram eftir götunum. Mér fannst það góður balans á móti bókahillunni. 🙂