Að ná áttum í nýrri viku
Púff… er að ná andanum eftir þriggja daga helgi. Hér á eftir fylgir ofur-blogg um helgina, og ég biðst fyrirfram afsökunar á því að lífið okkar sé svona óspennandi! 🙂
Föstudagur
Leikskólinn var lokaður á föstudaginn svo að Finnur tók morgunvaktina og ég tók síðdegisvaktina – á útopnu að sjálfsögðu. Eftir hádegismat í Gúgul fór ég með krakkana í Palo Alto Junior Museum & Zoo, sem er lítið “vísindasafn” plús pínkulítill dýragarður, og svo á leikvöllinn sem er þar fyrir aftan.
Í lok dags fór ég með krakkana í heimsókn í gamla bekkinn hennar Önnu Sólrúnar þar sem ég hafði mælt mér mót við mömmu Lulu (sem er ennþá í bekknum). Eftir heimsóknina kyssti ég Önnu Sólrúnu bless á bílastæðinu og þar með var hún farin í sitt fyrsta “slíp-óver”, það er næturgistinu hjá vinkonu sinni. Eftir blessið skaust ég með Bjarka í eins-árs-blóðprufu, sem reyndist “eðlileg”.
Um kvöldið komu Sarah og Augusto og pössuðu sofandi Bjarka á meðan við fórum út að borða (í fyrsta sinn í “ég veit ekki hvað langan tíma”) ásamt nokkrum vinum til að halda upp á þrítugsafmæli Kerriar. Eftir matinn fórum við og kíktum á hús sem vinahjón okkar eru að byggja (Já, byggja! Það er afskaplega óvenjulegt á þessum þéttbyggðu slóðum) rétt hjá veitingastaðnum.
Húsið var afskaplega flott og það var gaman að skoða það í myrkrinu með ljósalugt, því að það er ekki búið að tengja rafmagnið ennþá. Ég held að þau séu búin að vera að byggja í þrjú ár eða eitthvað og nú er svo komið að frúin er á því að þetta hafi ekki verið þess virði – en vonandi léttist á henni brúnin ef/þegar þau ná að flytja inn í desember.
Laugardagur
Ég náði í Önnu rétt fyrir hádegisbilið og fór með hana í hennar vikulega 30 mín sundtíma og stundaði á meðan mitt vikulega sund. Þetta var annars heimadagur fyrir utan að ég fór með krakkana á leikvöllinn í lok dags til að Finnur fengi frið til að elda og taka til. Það er kannski vert að minnast á veðrið “snérist” þennan dag, því eftir heita viku með vindum að sunnan, þá eru nú kominn kaldur vindstraumur að norðan og þar með flíspeysuveður.
Sunnudagur
Finnur tók fyrstu vakt á meðan ég svaf, enda ég orðin svo andlega sjúskuð að ég kem mér ekki í háttinn fyrr en um seint og síðarmeir. Um 10 leytið svæfði ég Bjarka og fór með Önnu í sund á meðan Finnur hvíldi sig (þetta er týpískur sunnudagsmorgun á þessu heimili).
Í síðustu viku fórum við og keyptum sunddót – svona litla langa plast-sundkarla sem sökkva í rólegheitunum. Anna Sólrún stóð sig svo ótrúlega vel í sundinu að ég vildi óska þess að ég hefði verið með neðansjávar vídeóvél. Hún kafaði og kafaði trekk í trekk og náði öllum körlunum af botninum hvað eftir annað. Hún er orðin opinberlega “synd” þó svo að hún syndi aðallega með skriðsundsfótatökum og minna með höndunum.
Eftir sundið lá leiðin í Stanford Shopping Center þar sem ég fann á hana jólaföt (Já í október, skrítið land) og keypti sokka. Það er einhvern veginn svo að ég get keypt eiginlega öll föt í outlet búðunum á helmingsafslætti – nema sokka. Skil það ekki alveg. Á leiðinn heim lognaðist mín út af og sofnaði í bílnum og ég skildi hana þar eftir á meðan ég stökk inn og pakkaði inn afmælisgjöf því næst lá leiðin í… afmæli!
Jamm, við héldum í “Pump it up” þar sem bekkjarfélagar Önnu sprikluðu um í miklum ham á meðan ég var yfirheyrð af nokkrum foreldrum um efnahagsástandið á Íslandi. Þegar heim var komið lá leiðin út á leikvöll á meðan Finnur endurtók leikinn frá því í gær og eldaði kvöldmat – svona líka fínan hörpuskeljar-rétt. Namm! 🙂
Um kvöldið var ég óþekk og fór á stúfana að leita að hinni óútgefinni fjórðu seríu af Doctor Who í bita-torrent-landi. Afraksturinn þar hélt mér vakandi fram yfir miðnætti og það var því ekki vel sofin Hrefna sem vaknaði upp klukkan hálf fjögur við að Anna var búin að pissa í rúmið sitt í fyrsta sinn í marga marga marga mánuði. Ó boj!
Mánudagur
Í morgun fór ég með Bjarka í þroska-mat á spítalann. Þar hittum við lækni sem við hittum síðast í febrúar og hún rétti Bjarka alls kyns hluti til að prófa hitt og þetta. Hann sýndi henni hvað hann er duglegur að standa upp við hluti og fara niður aftur. Hann sýndi henni hvað hann er duglegur að ganga meðfram, og klifra. Hann setti kubba í bolla, hann hermdi eftir henni þegar hún sýndi honum hvernig maður litar á pappír með vaxlit, hann setti mjóan viðarstubb í lítið gat, hann lék sér með bjöllu og hann notaði báðar hendurnar jafnt við að grípa í seríós. Það eina sem hann var ekki alveg að ná var að snúa við langri dollu til að ná seríósinu út.
Ég á eftir að fá formlega skýrslu frá heimsókninni en læknirinn var sammála mér að hann er kannski 2-4 vikum á eftir þar sem hann “ætti” að vera, en að hann sé allur á réttri leið. Hún lagði mikla áherslu á að hann væri “forvitinn” sem að þýddi að hann hegðaði sér eins og maður byggist við. Hún sagði að hann væri örlítið klaufalegur í höndunum en að hann ætti eftir að fínpússa það.
Eftir þá heimsókn fórum við heim og hrundum bæði í rúmið í 2 tíma og Bjarki mætti klst of seint á leikskólann. Núna er klukkan rúmlega fjögur eftir hádegi og ég er að gera allt sem mér dettur í hug til að þurfa ekki að fara að hugsa um fyrirlesturinn minn. Mánudagar eru greinilega orðnir “ná sér eftir helgina” dagar hjá mér.