Krakkarnir
Finnur tók að sér miðnætti-til-5-um-morguninn vaktina seint í síðustu viku með vatnspela að vopni og ég flutti yfir í Önnu-rúm. Þó svo að Bjarki væri í öðru herbergi og ég heyrði ekkert í honum, þá kom í ljós að ég var alltaf að vakna og yfirleitt af undarlegum draumum. Ég virðist því þurfa að læra að sofa aftur… slaaaaka á og svona. 🙂 Þetta svefn-stúss hefur samt hjálpað heilmikið, og gott ef ég hélt ekki vinnu-einbeitningunni í alveg tíu eða fimmtán mínútur í einu í gær. 🙂
Krakkarnir eru annars kátir, þó svo að það sé að læðast kvefpest inn á heimilið. Bjarki tók upp á því í lok síðustu viku að fara að skríða “venjulega”, það er með búkinn upp af gólfinu. Hann er líka orðinn nokkuð lúnkinn við að leika sér að skúffunum í eldhúsinu án þess að klemma puttana. Hurðir og spjaldabækur eru afskaplega sniðugar þessa dagana líka.
Hann virðist yfir höfuð vera mjög hrifinn af því að sjá hluti eða parta af hlutum hreyfast. Þannig sýndi einn kennarinn hans mér lítinn plast-póstkassa í dag sem var með hurð og fimm plast-“bréfum” í. Kennarinn sagði að allir krakkarnir hefðu strax gripið plastbréfin, nema Bjarki sem hefði verið heillaður af því hvernig hurðin hreyfðist.
Af Önnu er það að frétta að umsjónarkennarinn hennar, hún Liz, kom í heimsókn síðasta föstudagsmorgun. Við spjölluðum í smá stund og Anna sýndi henni herbergið sitt. Hún spurði okkur hver “markmið” okkar væru með Önnu næsta árið og við tuldruðum eitthvað um “impulse control”, sjálfstæði, leikgleði og almenna hamingju. Hún var greinilega fegin að við vorum ekki inn á “læra að lesa og reikna fyrir fimm ára aldur” línunni og sagði að fyrir nokkrum árum hefði hún kennt öðru íslensku barni sem hét Óliver. Hún hafði frétt frá þeirri fjölskyldu hvað íslenska skólakerfið væri afslappað (miðað við geðveikina hér) og við bara kinkuðum kolli. 🙂