Hvar vorum við?
Jæja, eru ekki allir búnir að prófa krómið? 🙂
Það hefur verið lítið um blogg undanfarna viku, ég er búin að vera annars hugar og “inn-á-við” en ekki “út-á-við” eins og venjulega. Hér er það helsta:
* Það var hitabylgja alla síðustu viku, með um og yfir 30 stiga hita á hverjum degi. Ekki gaman það.
* Magasýrustillandi lyfið hans Bjarka kláraðist og við ákváðum að láta á reyna hvort að hann þyrfti í raun á því að halda. Þetta gekk ágætlega fyrstu dagana, en svo fór hann að sofa verr og verr sem náði hámarki á laugardagskvöld/aðfararnótt sunnudags. Sem betur fer náðum við að fá lyfseðilinn endurnýjaðan fyrir hann og núna líður honum betur. Hann vaknar ennþá á ca 2ja tíma fresti alla nóttina, en er ekki jafn ómögulegur/órólegur. Ég er að gæla við að láta Finn vakna til hans næstu nætur yfir blánóttina og sjá hvort að það sé ekki hægt að venja hann af þessum ósið.
* Ég hélt saumó á föstudaginn síðastliðinn. Gaman að hitta stelpurnar og spjalla um heima og geima! 🙂
* Bjarki er Hr. Standa-upp-við-allt þessa dagana og gott ef hann er ekki að ná tökum á Setjast-niður-aftur líka.
* Anna Sólrún er orkumikil sem endranær, og oftast nær í góðu skapi. Undanfarna tvö daga hefur hún hins vegar komið heim frá leikskólanum með rosalega lítinn “halda-ró-sinni-þótt-eitthvað-fari-úrskeiðis”-forða og ég held að ég hafi sjaldan sem aldrei séð hana jafn öskufúla og í gær þegar ég tók af henni plastpoka sem hún ætlaði að fara að leika sér með (“plastpokar eru ekki dót”!). Mig grunar að þetta séu eftirköst af því að það byrjaði nýtt skólaár á leikskólanum þann 25. ágúst, og þá fékk hún þrjá nýja kennara (til viðbótar við einn gamlann) og allt í einu hrúguðust átta nýir (litlir) krakkar í bekkinn í staðinn fyrir fjóra sem hættu.
* Ég var að fá þær fréttir að Hannes, bróðir móðurafa míns, hefði látist í gær, 83 ára að aldri. Hvíl í friði Hannes.