Ég má segja! Ég má segja! Ég má segja!
2008-09-02Uncategorized Standard
Jæja, þá er leyndinni aflétt! Ég má loksins segja frá því sem ég er að vinna að, því að fyrsta beta útgáfan er komin út! Þungu fargi af mér létt! Ég er sem sagt að vinna í Króminu (nýja vefráparanum fyrir Windows XP og Vista).
Fyrir þá sem hafa áhuga þá hef ég leitað eftir verkefnum sem innihalda (allavega að hluta til) útfærslu á notendaviðmótinu í Króminu. Stærsta verkefnið mitt hingað til hefur verið að útfæra frá grunni vefsíðu-orðaleitina (leitarglugginn uppi í hægra horni – svolítið írónískt, þegar litið er til þess að ég heiti Finnur) en ég hef einnig unnið að öryggis-“sandkassanum” (til að nýta reynsluna frá Grínborder). Af öðru má nefna Create Shortcut gluggann (stuttköttinn), About gluggann (þmt. að láta Krómið tala við Google Update til að athuga hvort til sé ný útgáfa) og í “skrúbbinu” (Clear Browsing Data glugginn). Svo er ég örugglega að gleyma einhverju. 🙂 Hvað um það…
Ég hvet alla til að prófa nýja vefráparann. Hann hefur verið minn aðal-vefrápari undanfarna mánuði og ég er mjög ánægður með hvernig til tókst með fyrstu beta útgáfuna.
Ég er eiginlega örþreyttur eftir langan útgáfudag þar sem ég var límdur við tölvuna að lesa umsagnir – en mér sýnist sem útgáfan hafi gengið vel, þó að óvart hafi þetta lekið út degi áður en upphaflega var planað. Viðtökurnar hafa líka verið mjög góðar (t.d. hér). Kíkið líka á teiknimyndasöguna, hún er svolítið sérstök. 🙂