Eftirlátssemi/þráhyggja
Eins og ég minntist á í síðasta pósti, þá hef ég verið “annars hugar” undanfarið, nánar tiltekið í viku. Þetta annarlega hugarástand lýsir sér með því að ég gjörsamlega kolfell fyrir einhverju (yfirleitt bók/sjónvarpsþætti/bíómynd/tónlist) og vil helst bara vera ein í heiminum og horfa/hlusta/lesa, sama hvað klukkan er. Þetta gerist af og til – ég held að síðast hafi það verið fyrir rúmu ári síðan þegar síðasta Harry Potter bókin kom út, þó að það hafi verið tiltölulega vægt “kast” því það endaði þegar bókin var búin.
Nú er ég ekki sálfræðimenntuð, en mig grunar að það sé örugglega til einhver “greining” á svona hegun. Hvaða heilvita manneskja tekur til dæmis upp á því að horfa á heilt sjónvarps-season (22 þættir, 40 mín hver, ca 15 klst af efni) á einum sólarhring? Ég skal viðurkenna að það var nokkuð um hraðspólun yfir minna-áhugaverðu partana, en allt í allt þá eyddi ég öllum síðasta mánudegi fyrir framan sjónvarpið. Það sama átti við um aðfararnótt laugardags og sunnudagskvöld (það var seasonið á undan). Ég hefði glöð hangið fyrir framan sjónvarpið alla helgina, en það er víst svo að þó að maður sé andlega fjarstaddur, þá þarf víst að huga að krökkunum og svona.
Þetta byrjaði að sjálfsögðu sakleysislega. Baksagan að þessu tiltekna þráhyggjukasti er sú að árið þar sem ég var í “venjulegri vinnu” eftir að hafa klárað HÍ þá átti ég það til að heimsækja mömmu eftir vinnu. Í minningunni þá gerðist það nokkrum sinnum á stuttu tímabili að Nökkvi bróðir (þá 13 ára) var einn heima að horfa á sjónvarpið frammi í stofu, með öll gluggatjöld dregin fyrir. Með Melroses te og ristað brauð með osti settist ég inni í stofu til að spjalla, og var þar með kynnt fyrir Buffy vampírueyðara.
Það tók mig um það bil tvo þætti að komast nokkurn veginn inn í söguna (Hver er þetta? En þetta?) en þar með var ég líka kolfallin fyrir ástarsögunni á milli Buffy og Angel. Kooooooolfallin. Með stóru K-i. Andvarp. Þegar við svo fluttum til Kalíforníu þá lofaði ég (og stóð við) að taka upp Buffy og Angel þætti á spólu og senda heim til Íslands. Greyið ég þurfti að sjálfsögðu að horfa á þættina líka, ó, aumingja ég. 🙂 Þegar framleiðslu þáttanna lauk þá festi ég kaup á DVD af season 2 og 3 af Buffy, enda langmesta kjötið á þeim beinum, og setti upp í hillu.
Svo skal spólað til síðustu viku. Hann Nökkvi bróðir átti afmæli í byrjun mánaðarins (Til hamingju með 21 árs afmælið Nökkvi!) og óskaði eftir að fá Buffy teiknimyndablöð í afmælisgjöf. Blöðin komu í póstinum og heilinn sagði “Huh, ég man eftir þeim tíma”. Nokkrum dögum síðar var ég að spranga um á Hulu.com síðunni, sem er svar stóru sjónvarpsstöðvanna við BitTorrent dreyfingu á sjónvarpsefni um netið. Nú veit ég ekki hvort það sé hægt að skoða síðuna frá Íslandi, en þarna er að finna glás af sjónvarpsefni, með nokkrum stuttum (30 sek) auglýsinum í staðinn fyrir 5 mínútna auglýsingahléin sem eru í sjónvarpinu. Sum sé, alvöru sjónvarpsstöð á netinu.
Undir síðunni með “vinsælustu þáttunum” þá rakst ég á Buffy. Jamm, ég er greinilega ekki eina manneskjan í heiminum sem er veik fyrir blöndu af hryllingi, gríni, drama og uh, forboðinni ást, helst í leðurbuxum. Næstu skref: “Huh, hvaða Buffy þættir ætli séu vinsælastir?”… “Úhhh, þáttur 1-7 heitir Angel“… “Best að kíkja…”… #Risastórt soghljóð þar sem ég sogast inn í þráhyggjuheim og þarf nú að horfa á ALLA söguna á milli Buffy og Angel, sama hvað það kostar!!!#
Þetta var á fimmtudegi og á þriðjudegi var ég búin með season 2 og 3 af buffy. Á þriðjudagskvöldið horfði ég á Angel þættina sem díluðu við Buffy (jújú, season 1 af Angel er á Hulu, oh, the agony!). Síðan þá hef ég sogast til að lesa mér til um leikarana (Hvar eru þeir núna?!) og lesið viðtöl og lesið mér til um hvað Joss Whedon er að bralla. Svo má ekki gleyma því að Bones þættirnir eru byrjaðir aftur (jamm, með leikaranum sem lék Angel…) og þeir eru að sjálfsögðu á, arg, Hulu.
Ætli það sé ég sé að reyna að segja er að ég hef ekkert unnið alla vikuna (Halló eilífðar samviskubit!). Í mesta lagi þá hefur vinnan verið í bakvinnslu, á meðan meiriparturinn af heilanum hefur velt sér upp úr kósí-nostalgíu-sykurblöndu. En með því að skrifa þetta frá mér, þá þykist ég nú vera búin. Búúúúúúúúúúin. Eða svona nokkurn veginn. Við sjáum hvað setur.
P.s. Fyrir þau ykkar sem geta horft á þætti af Hulu og eru veik fyrir Joss Whedon afurðum (Ó Firefly, hví yfirgafstu okkur svo fljótt?!) þá bendi ég á að Dr. Horrible’s Sing-along-blog er uppi!