Túristalífi lokið
Við héldum áfram skoðunarferðunum um nágrennið á fimmtudag og föstudag. Á fimmtudeginum keyrðum við upp til San Fran á hádegi og eyddum deginum inni í Exploratorium safninu. Þar inni eru hellingur af hlutum sem krakkar (og foreldrar þeirra) eiga að fikta í. Anna Sólrún skemmti sér ágætlega þó svo að mig gruni að safnið henti ennþá betur fyrir aðeins eldri krakka sem kunna að lesa. Þegar safninu lokaði klukkan fimm þá fórum við yfir á bryggju 39 til að skoða sæljónin og borða kvöldmat.
Á föstudeginum (eftir frábæran handboltaskammt) fórum við yfir fjöllin til Santa Cruz á Kyrrahafsstöndinni. Við byrjuðum á því að heimsækja “Boardwalkið” og við skiptumst á að fara í tækin. Eftir tækjahoppið þá fórum við út á ströndina sjálfa þar sem krakkarnir undu sér vel. Anna byrjaði á því að hoppa í öldunum en svo benti ég henni á risastóran poll á miðri stöndinni (“tide-pool” eins og það er kallað) sem myndast á háflæði. Þar veltist hún um, elti máva, velti sér upp úr sandinum, velti sér aftur upp úr pollinum, elti fleiri máva, lék við krakka og lá svo meira í vatninu. Bjarki lék sér alsæll í sandinum á meðan, en töluvert þurrari.
Um fjögurleytið yfirgáfum við ströndina og keyrðum út á stóra bryggju við ströndina. Þar hittum við Cöru, eina af aðalhjúkkunum hans Bjarka frá því í fyrra, en hún heldur ennþá sambandi við okkur. Bjarki var örlítið feiminn í byrjun en svo brosti hann og lék við hvern sinn fingur á meðan við borðuðum snemmbúinn kvöldmat. Cara var glöð að sjá hvað Bjarki hefur stækkað og honum farið mikið fram.
Í dag, laugardag, ákváðum við að þetta væru nóg ævintýri í bili og áttum rólegan dag. Anna fór í sund að venju og síðan heimsóttum við Sólveigu og Arnar. Þar sullaði Anna í garðinum með Nikulási og Freyju á meðan Bjarki skreið um í pollunum og varð vel blautur! Nú sitjum við fyrir framan sjónvarpið þar sem Finnur ætlar að horfa á handbolta-leikinn til tvö í nótt. Ég held að ég láti mér nægja að lesa um hann í fyrramálið því að ég hef ekki taugar í svona!!! 🙂