Oakland dýragarðurinn
Dagur eitt í leikskólafríi er kominn og farinn. Við brugðum undir okkur betri fætinum og heimsóttum Oakland dýragarðinn í fyrsta sinn. Þetta var hin fínasta ferð – Anna Sólrún var áhugasöm um dýrin (ég held að apar að sveifla sér í reipum hátt uppi, geitur að kúka og fílarnir hafi verið mest spennó) og Bjarki Freyr undi sér sáttur í kerrunni á meðan. Ég reyndar kímdi þegar við komum að gíröffunum og Anna sagði “ég hef aldrei séð gíraffa fyrr”. Hún man að sjálfsögðu ekkert eftir því en þegar hún var yngri fórum við með hana í San Fran dýragarðinn t.d. árið 2005 og árið 2006 vorum við fastagestir (sjá mars , júlí og ágúst).
Við boðuðum svo komu okkar í kvöldmat til Augusto og Söruh og síðan var farið í heita pottinn í nýja bakgarðinum þeirra. Það var algjör snilld nema hvað að þegar ég fór inn til að fara í sturtu rann ég á hausinn á flísalögðu gólfinu og uppskar svæsið mar á hægra herðablaðinu. Við fórum heim um seint og síðir með soðna fingur og tær… 🙂