Mið vika
Ég er þreytt og hefði átt að fara að sofa fyrir klukkustund síðan. En það er svo langt að fara upp úr sófanum (með fartölvuna ofan á sér) alla leið upp á efri hæð og upp í rúm. Svo ég hangi hér enn. Nú var Bjarki reyndar að kvarta, enda klukkan orðin ellefu og kominn tími á sýrustillandi lyfið hans og svo nætursnarlið. Ætli ég fari ekki að skríða upp bráðum…
En fyrst ég er byrjuð þá er best að “í fréttum er þetta helst”-a smá. Aðalfréttin er að Inga amma hans Finns lést um helgina og verður jarðsungin á mánudaginn. Hún Anna, mamma Finns, skrifaði um hana smá pistil á blogginu sínu. Inga var dugnaðarforkur og það var alltaf gaman að tala við hana. Hennar verður sárt saknað.
Af mér er það að frétta að ég er loksins komin í sjúkraþjálfun til að reyna að vinna bug á “repetitive stress injury” í höndunum á mér. Alltaf þegar ég sest niður við tölvuna og byrja að nota lyklaborðið eða músina þá fæ ég brunatilfinningu í hendurna. Þetta er að öllum líkindum til komið af stífum vöðvum sem eru til komnir af stressi og hreyfingarleysi. Sem stendur mæti ég tvisvar í viku í nudd og raf-meðferð en síðar meir má ég eiga von á styrkjandi æfingum og hver veit hvað.
Af Önnu er það að frétta að hún virðist vera heldur stressuð þessa dagana – er með mikil læti og hávær píp út í eitt. Það gæti tengst því að nýtt leikskólaár er að byrja í lok mánaðarins og þá er von á miklum breytingum. Það er ekki nóg með að fjórir elstu krakkarnir útskrifist og átta (!!!) nýir og yngri krakkar komi í staðinn, heldur á að skipta út þremur kennurum af fjórum. Það þarf að undirbúa allar þessar hrókeringar vel og því kannski ekki skrítið að kennararnir séu örlítið stressaðir – og krakkarnir með.
Af Bjarka er það að frétta að hann vill bara fara upp, upp, upp! Fyrir tveimur vikum lærði hann að setjast sjálfur upp og í síðustu viku var hann mikið uppréttur á hnjánum. Núna er hann farinn að standa með beinar fætur við lága hluti, og í gær skilst mér að hann hafi togað sig upp og staðið uppréttur í smá stund í fyrsta sinn á leikskólanum. Í morgun fór hann upp tvær tröppur í stiganum en rakst svo á dót sem var svo spennandi að hann missti jafnvægið og ég greip hann. Hann er sem sagt allur að styrkjast enda ekki seinna vænna því að allir hinir krakkarnir eru annað hvort farnir að ganga, eða næstum farnir að ganga og ekki gaman fyrir hann að vera einn eftir.