“Hvernig gengur svo með ritgerðina?”
Sakleysisleg spurning, ekki satt? Álíka spurningar eru “Hvernig ganga rannsóknirnar?”, “Hvenær ætlarðu að verja?” svo ekki sé minnst á “Hvenær verðurðu búin með námið?”. Þó svo að þetta séu allt skynsamlegar og skiljanlegar spurningar, þá eru þær samt á við að spyrja um aldur og þyngd á meðal doktorsnema! Þar sem að sumarið er hins vegar að syngja sitt síðasta (uh, reyndar er heill mánuður í að haustönnin byrji, en hvað um það) þá er best að koma með smá status-öppdeit.
Þegar sumarið byrjaði þá var bara eitt verkefni sem nýi leiðbeinandinn vildi að ég kláraði áður en ég gæti snúið mér að varnarundirbúningi, vörn og svo skriftum. Reyndar vildi hann að ég byrjaði strax að skrifa, en ég á erfitt með svoleiðis múltítasking… Hvað um það… Þetta “litla” verkefni hefur hins vegar þrjóskast og þrjóskast við að láta leysa sig alveg sama hvað ég hef reynt. Líf mitt hefur hreinlega verið “að berja hausnum við stein” í allt sumar.
Það eina góða við þetta þrjóskustand er að ég hef í millitíðinni næstum klárað að fara yfir það sem ég hef verið að gera undanfarin ár og náð að setja helstu atriðin skipulega upp í OneNote forritinu sem Sarah benti mér á (já, ég veit að það er frá illu fyritæki, en ég fékk það ódýrt á nemandaverði). Þar með á ég auðveldara með að svara hinum og þessum spurningum sem leiðbeinandinn baunar á mig þegar ég hitti hann, sem hefur verið u.þ.b. vikulega í sumar.
Það hefur einmitt gert sumarið bærilegra að leiðbeinandinn hefur í raun og veru verið hérna, á staðnum, á kampus, inni á skrifstofunni sinni, í meira og minna allt sumar. Og það sem meira er – hann í raun og veru komið með uppbyggjandi og hjálplegar uppástungur og komment sem er nú bara eitthvað sem ég var búin að gleyma að væri til! Það hefur amk verið skemmtileg tilbreyting að yfirgefa hvern fund með ákveðna hugmynd um hvað maður vill reyna næst – eini gallinn er að flest allt hefur reynst skammgóður vermir. En núna grunar mig að það séu ekki miklu fleiri steinar sem lausnin getur falið sig undir – ja, eða öllu heldur – ég fer að geta sagt bráðum að það séu of margir steinar og þess vegna ætla ég bara að gera eitthvað allt annað.
Annars verð ég að játa það að doktorsnám er skrítið fyrirbæri. Það gengur út á að finna sér eitthvað verkefni/vandamál, sökkva sér niður í það, velta því fyrir sér á alla kanta, lesa hvað aðrir hafa gert, svo að maður geti “svarað” hvaða spurningu sem skotið er á mann. “Hefurðu athugað hvernig þessi lausn er samanborið við það sem Dr. Þessi og Hin gerðu árið sautján-hundruð-og-súrkál?”… “Hver er óvissan í mælingunum?”… “Hvaða áhrif hefur það á lausnina ef grænn kálormur étur gult laufblað á mælisvæðinu?” … o.s.frv…
Þannig séð held ég að eiginlega allir sem vinni að einhverju í langan tíma (segjum 5-6 ár) séu í raun komnir með doktorsgráðu. T.d. er ég viss um að póstburðarfólk viti miklu meira um hönnun á póstlúgum og póstkössum en framleiðendur nokkurn tímann – og hugsi þeim í mörgum tilfellum þeygjandi þörfina. Samfélagið hefur hins vegar ákveðið að bara þeir sem eru tilbúnir að borga pening (eða, eins og í mínu tilfelli, fá aðra til að borga pening fyrir sig), og hafa tíma og nennu og þrjósku til að skrifa athuganir sínar niður á blað, megi kalla sig doktora. Af hverju það er er örugglega rætt í einhverri doktorsritgerð einhvers staðar!
Það sem flækir líf doktorsnema nútímans er að því miður eru flest grunn-verkefnin þegar leyst á mörgum sviðum. Því sér maður aftur og aftur að fólk er að verja verkefni sem eru ítrun og/eða fínpússun á verkefnum fortíðarinnar. Mitt verkefni er eitt þeirra, sem er svo sem ekkert verra, en manni finnst það samt einhvern veginn minna spes. Nú er samt svo komið að ég held að ég sé búin að sætta mig við að það sé ekki verkefnið sem skipti máli, heldur “ferðin” – það er reynslan að hafa lifað með vandamáli í mörg ár og unnið að einhverju leyti bug á því.
Nú er bara að kremja þetta litla vandamál… uuuurrgh!!