Hugmyndir?
Jæja, í tilefni af því að ég kláraði árið 2007, þá er komið að “árlegri” endurhönnun á síðunni. Finnur er búinn að sitja sveittur við að búa til nýja “höfuð”-mynd og nýtt “lúkk” og það ætti að blasa við núna. Ef ekki, endilega ýtið á “2008” hér að ofan (við vorum að breyta hvert hrefna.com bendir, og það á eftir að taka einhverja klst að uppfærast úti í hinum stóra heimi).
Við erum annars að velta fyrir okkar öðrum breytingum. Til dæmis lesum við bæði núna blogg mest megnis með svona “les” forriti sem lætur okkur vita þegar síður eru uppfærðar (ýta á “Add subscription” og líma inn vefslóðina!). Ég er því alveg hætt að nota hlekkina hér til hliðar, ef frá eru taldir þeir sem eru rss-lausir (ég er að tala um myndapartinn á 123.is, Sonju og Ríkey… og Stínu en hún er eiginlega hætt að blogga). Það sama á við um krakkasíðurnar sem virðast hvort eð er vera frosnar í tíma. Okkur datt því í hug að að fjarlægja eiginlega alla blogg-linkana og færa lesendakommentin (þau fáu sem okkur berast – snökt, snökt) upp í staðinn.
Nú veit ég að það eru um 30-80 manns sem kíkja inn á síðuna okkar daglega og að einhver ykkar hljóta að luma á hugmyndum. Hvað fer í taugarnar á ykkur? Eitthvað sem má breyta til betri vegar? Nýir fítusar? Einhverjar uppsetningarhugmyndir? Er eitthvað meira frústerandi en annað? Eru myndirnar of litlar? Of stórar? Of fáar? Of margar? Eitthvað sem virkar vel (hrós?!?)…
Ég hef annars verið að lesa mér aðeins til um kvennabloggin ógurlegu, enda sjálf áskrifandi af nokkrum þeirra. Markaðsmenn (og -konur) eru farin að uppgötva mátt netsins og auglýsa nú grimmt, og sumar þeirra eru farnar að hafa örlítið (og stundum meira en það) upp úr pikkinu. Sjálf skaut ég inn einni gúgul auglýsingu fyrir löngu síðan bara svona til að prófa, en gúgul fattaði fljótt að ég skrifa ekki á ensku og því lítið að hafa upp úr því. Mér finnst þjónustuauglýsingin hins vegar krúttleg og leyfi henni því að standa.
Annars finnst mér það merkilegt með þessi kvennablogg að þau eru öll svo lööööng og ítarleg. Og að það er alltaf einhver saga, eða þeóría á bak við hvert eitt og einasta innlegg. Ekkert svona A gerði þetta, B gerði þetta, F gerði þetta og H ætti að vera farin að sofa! Nema jú reyndar þegar kemur að fyrirburabloggum, þá er mikið um það.
Hins vegar er engin þeóría á bak við mitt bull í bili. Meira bara svona “huh, kvennablogg eru að blómstra núna, best að taka eftir því” hugsun. Huh, nú varð mér hugsað til mbl.is sem keyrir endalausar megrunarauglýsingar á sinni forsíðu (hah, læv-blogg! sko mig!) og þar með er ég afskaplega fegin að selja ekki út auglýsingapláss! Þess fyrir utan sagði mér einhver einhvern tímann að ég yrði að passa mig á því að vera ekki með tekjur fyrir utan skólann, því að ég er tæknilega séð ekki með atvinnuleyfi í þessu undarlega landi og gæti lent í vandræðum með svoleiðis!! Weird!
Hvað um það. Af Bjarka er það að frétta að hitinn skaust í 39.7 C í gærnótt (íííík!! ég gæti aldrei, aldrei, aldrei verið hjúkka – ég hef ekki taugarnar í svona lagað!!) en var kominn niður í 37.8 C um hádegið í dag. Bjarki var samt afskaplega pirraður eftir hádegi, og nú veit ég ekki hvort að það séu eyrun sem eru ennþá að bögga hann, vírusinn eða síðasta framtönnin sem er aaaaalveg að koma niður á milli tveggja eldri tanna (ái!). Það er hins vegar ljóst að hann er ekkert á leiðinni í leikskólann á morgun (föstudag) og þessi vinnuvika því endanlega fyrir bý. Leikskólinn verður svo lokaður í 3 daga í næstu viku vegna starfsdaga. Þabbaraþannig! 🙂