Hitinn útskýrður
Hitinn hans Bjarka hækkaði frekar en lækkaði núna síðustu nótt (hæst mældi ég 39.5 stiga hita) svo að ég hringdi upp á “heilsustöð” og talaði við hjúkku sem ráðlagði mér að láta kíkja á hann. Jújú, það kom í ljós að hann var með eyrnabólgu í báðum eyrum (ái) og fékk þar með sinn fyrsta pensíllín-skammt frá því að hann útskrifaðist af spítalanum. Læknirinn sagði að lungun hljómuðu hrein og að eyrnabólgan væri líklega afleiðing af vírus-kvefpest sem hafði fyllt hausinn af slími. Við vigtun (í samfellu og með bleiu) reyndist hann 8.3 kg og ég snögg-mældi lengdina með stóru mælipriki og fékk út 29 tommur, eða 74 cm. Eftir tvo pensillín-skammta í dag virðist hitinn loksins vera aðeins á undanhaldi og vonandi líður honum betur.
Ég læt fylgja með mynd frá föstudeginum þar sem Anna tók sig til og þreif Bjarka eftir subbulegan kvöldverð. Honum fannst það vera frekar mikið sport!