Frekari heimsóknir og bíóferð
Gærdagurinn (sunnudagurinn) byrjaði á brunch heima hjá írsku konunni sem deildi með Hrefnu herbergi á sængurkvennadeildinni. Þau gengu í gegnum nokkrar hremmingar en enduðu með ljúfan, heilbrigðan og brosmildan dreng eins og við. Það var gaman að koma í heimsókn til þeirra og skiptast á lífsreynslusögum en þau upplifðu ekki bara erfiða og stressandi meðgöngu með tilheyrandi vist á nýburavökudeild eftir fæðingu heldur er fjölskyldusamsetningin svipuð og okkar: karl og kona (ótrúleg tilviljun!), drengirnir jafn gamlir og þau eiga fyrir litla stúlku aðeins yngri en Anna, sem var þvílíkt himinlifandi að fá leikfélaga í heimsókn. Við sátum og spjölluðum þar í góðu yfirlæti í nokkra klukkutíma á meðan krakkarnir dunduðu sér.
Eftir lúr fór Hrefna með Önnu í IKEA að hjálpa Augusto og Söruh að kjósa rétt. 🙂 Og um kvöldið komu þau í heimsókn og Sarah passaði krakkana meðan við fórum í bíó með Augusto að sjá nýju Batman myndina. Því miður var Bjarki kominn með 39 stiga hita um nóttina og fór því ekki á leikskólann en hann er búinn að vera ansi aumur í dag, greyið.