Borðað í búðinni
Eftir sundtímann hennar Önnu í dag þá fórum við mæðgurnar (svangar) í búðina. Það fyrsta sem við settum í körfuna var lítill brauðhleyfur, mínus tvær brauðsneiðar. Þegar við komum að grænmetisdeildinni kom í ljós að við vorum þar á allra besta tíma því að það var búið að skera niður fullt af ávöxtum fyrir fólk að smakka. Eftir að hafa eitt rúmum hálftíma á beit á milli þess að grænmeti og ávextir voru settir í körfuna, þá lá leiðin að fiskborðinu.
Á meðan að ég velti fyrir mér hvers konar lax ég ætti að kaupa, þá bauð afgreiðslumaðurinn okkur að smakka snigil! Anna neitaði kurteisilega en ég ákvað að láta vaða. Maðurinn opnaði þá lítinn ofn og tók út kuðung sem var um 3-4 cm á breidd og rétti mér ásamt tannstöngli. Það var heilmikið hvítlaukspestó í kuðungnum og ég veiddi snigilinn upp í gegnum það. Anna gapti en ég borðaði snigilinn og hann var bara ágætur. Svoldið eins og grillaður sveppur satt best að segja.
Eftir búðarferðina komum við saddar heim og ég svæfði Bjarka á meðan Anna “hvíldi” sig. Síðan fórum við í heimsókn til bekkjarsystur Önnu og borðuðum með þeim fyrrnefndan lax. Við heimsóttum þau síðast þann fjórða júlí og þá komumst við að því að Anna og bekkjarsystir hennar voru næstum jafngamlar, það munar bara á þeim klst! Bekkjarsystirin á tvíburarbræður sem leika sér í sama garði og Bjarki á leikskólanum.
Eftir matinn var sett af stað teiknimynd og við sátum límd yfir henni þar til yfir lauk og allar aðalsöguhetjurnar voru giftar (parað saman eftir háralit, að sjálfsögðu!). Anna yfirheyrði okkur í bílnum á leiðinni heim um af hverju vondi karlinn vildi verða kóngur o.s.frv. Maður gleymir svolítið að stereótýpísk hegðun í sögum og bíómyndum er oft ekki breinlínis rökrétt eða inn á reynslukorti ungra krakka. En það lifðu allir hamingjusamir til æviloka!