Lífið að falla í fastar skorður
Eftir hasar síðustu vikna (Íslandsferð! Flutningar! Afmæli!) þá er lífið aðeins farið að falla í fastar skorður. Hitt og þetta hefur þó gerst sem telst fréttnæmt. Helgin síðasta var löng því þjóðhátíðardagurinn 4. júlí féll á föstudag. Þetta var mikil veisluhelgi, því við erum löngu búin að læra að það er miklu auðveldara fyrir okkur að heimsækja fólk með krakka á Önnu-aldri heldur en að húka heima. Á föstudeginum fórum við í pottlukku til einnar stelpu úr nýja bekknum, á laugardeginum fórum við í sundlaugar-pottlukku til stelpu úr gamla bekknum og á sunnudagsmorgun fór hún í afmæli til stráks sem var með henni í bekk fyrir ári síðan!
Flugeldar
Á föstudagskvöldið fór ég með Önnu í smá bíltúr til að kíkja á flugeldasýningu í nágrenninu. Anna greyið hefur þjást af ofsaótta við flugelda og þrumur (og eldingar) um langt skeið, enda bæði hávær fyrirbæri og erfið útskýringar. Fyrir flugeldasýninguna fann ég því vídeó á netinu um hvernig flugeldar virka og svo af flugeldasýningum. Til mótvægis fann ég líka vídeó af þrumum og eldingum. (Jútjúb rokkar!)
Um kvöldið komum við okkur fyrir á brú yfir eina hraðbrautina í góðri fjarlægð frá skotpallinum þar sem nokkur hópur fólks hafði safnast saman. Anna hélt fyrir eyrun allan tímann á meðan sýningunni stóð (þó að það væru meiri læti í bílunum á hraðbrautinni en flugeldunum) en þegar sýningunni lauk og allir löbbuðu í burtu þá kættist strympa. Mig grunar að hún sé ennþá örlítið smeik við lætin, en nú held ég að hún skilji þó amk muninn á flugeldum og þrumum & eldingum, og er það vel!
Hjól
Á sunnudeginum festum við kaup á hjóli fyrir Finn svo að hann geti hjólað í vinnuna. Það mun vera fyrsta hjólið “hans” síðan við hófum sambúð, en hingað til hefur hann þurft að húka á allt of litlum og mis-lélegum hjólum sem ég hef átt í gegnum árin. Þar sem við erum núna komin með bílskúr þar sem við getum falið hjólið þá keyptum við almennilegt nýtt hjól sem hafði fengið góða dóma. Finnur er búinn að hjóla í vinnuna síðan hann fékk hjólið (þau feðgin hafa hjólað saman á leikskólann á morgnana) en við eigum aðeins eftir að fínpússa hvernig er best að ná í krakkana í lok dags því það er ekki hægt að ýta kerrunni hans Bjarka af hjóli!
Leikskóli
Annað sem er fréttnæmt er að aldrei þessu vant erum við nátengd frétt í New York Times blaðinu. Þar var fjallað um leikskólagjaldahækkun Gúgul sem er listuð á þessari slúðursíðu. Eins og fyrr sagði þá kemur þetta ekki neitt sérstaklega illa við okkur á næsta ári því að gjöldin eru í augnablikinu talsvert lægri en á gamla leikskólanum. Þeir sem hins vegar þiggja pláss núna koma til með að borga fullt verð. Eins og ég skil þetta skýrist kostnaðurinn að miklu leyti af háum leikskólakennaralaunum, en fyrirtækið er að reyna að laða að sér hámenntaða kennara og er tilbúið að borga vel.
Talandi um leikskólann þá verð ég nú að segja frá því að tveir af kennurunum hans Bjarka komu í heimsókn til okkar í morgun. Hver krakki er nefnilega með “aðal-kennara” og sá kennari á að koma í heimsókn til barnsins rétt áður, eða rétt eftir að barnið byrjar í skólanum. Sökum anna þá biðum við með heimsóknina þar til nú, fyrir utan að ég var ekki alveg að skilja tilganginn með henni.
Hvað um það, þær mættu sem sagt tvær í morgun og Bjarki var nú frekar hissa bara! Við sátum aðeins á gólfinu hjá honum og spjölluðum um hvernig hann leikur sér hérna heima og um rútínuna okkar. Mér skildist helst á þeim að það þætti mikilvægt að barnið sæi kennarana líka heima hjá sér til að tengjast kennurunum betur… eða eitthvað í þá áttina. Við eigum ennþá eftir að fá heimsókn frá aðalkennara Önnu, en sá kennari er víst að skipta um bekk í ágúst svo að Anna fær nýjan aðalkennara. Kannski að við bíðum bara með heimsóknina þar til þá!
Myndir
4. júlí 2008: Systkinin að horfa á pabba sinn.
5. júlí 2008: Laugardagspartý hjá Daryu.
6. júlí 2008: Sunnudagskvöldverður hjá Lulu.
9. júlí 2008: Vicki og Trang í heimsókn.