Hvað er öðruvísi?
Eftir að við fluttum þá hef ég oftar en ekki verið spurð hvernig er “að vera flutt”. Í fyrstu var þetta svona á við að verða spurður “háv dú jú læk æsland” þegar maður rétt búinn að keyra frá flugvellinum og inn á höfuðborgarsvæðið. Nú er hins vegar komin smá reysla á þetta. Hér fylgir það sem er “öðruvísi”:
– Stærri íbúð fylgir meiri labb. Í gömlu íbúðinni voru um það bil 3 skref frá eldhúsboði að sófa, en núna eru þau um 10. Eldhúsið er líka dýpra.
– Það er lúxus að vera með klósett á neðri hæðinni. Það er ofur-lúxus að vera með prívat klósett inn af svefnherberginu manns.
– Nú skil ég betur hreingerningaróðar heimilismæður sem eru sífellt að sópa og skúra. Ef við skiljum eftir matarsnitti á gólfinu nálægt stofuglugganum, þá koma maurar upp úr einum stokknum og búa til flutningaleið yfir að bitanum. Sem stendur hafa þeir ekki fundið eldhúsið, en það er væntanlega bara tímaspursmál. Á gamla staðnum eitruðu þeir grimmt fyrir maurum, enda löngu vitað að stúdentar eru slóðar upp til hópa!
– Það er gott að krakkarnir hafa loksins almennilegt leikpláss í stofunni.
– Það er afskaplega þægilegt að strjúka af borplötum sem eru heilar, en ekki flísalagðar.
– Það er skrítið að hafa bara eina ruslatunnu og eina endurvinnslutunnu út af fyrir sjálfan sig.
– Það brakar svo lítið í nýja stiganum og teppið er svo mjúkt að við getum læðst upp á efri hæð án þess að Anna Sólrún taki eftir því.
– Bílskúrar eru snilld. Það á aldrei eftir að búa bíll þar samt.
– Við reyndum að vera sparsöm og lifa án þurrkara, en við gáfumst upp.
– Við söknum þess ekkert ennþá að rúlla með 3-4 þvottavéla-fyllir af þvotti yfir í fjarlægt þvottahús og þvo allt í einu. Sem stendur gengur ágætlega að þvo bara eina vél í einu.
– Gólfið á nýju neðri hæðinni er ekki jafn stabílt og gamla gólfið. Þegar Anna hoppar og skoppar, þá glymur í öllu húsinu.
– Internet tengingin okkar á nýja staðnum er talsvert aumingjalegri en á gamla staðnum.