Eitthvað nýtt!
Anna Sólrún er búin að uppgötva fyrirbærið “nýtt”. Eitt kvöldið fyrir um 3 vikum vaknaði hún nálægt miðnætti og var illt í hálsinum. Til að svæfa hana sagði Finnur henni sögur frá sinni æsku og eftir það fór hún að heimta fleiri sögur. Finnur sendi því út sögubeiðni til sinnar fjölskyldu, og fékk til fullt af litlum stuttum skemmtisögum sem hann segir Önnu núna fyrir svefninn. Þegar hún spurði mig svo eitt kvöldið um skemmtisögur af mér, þá rak mig í rogastans því að ég var svo ferlega hlýðinn krakki að ég gerði aldrei neitt skemmtileg að því er mér fannst, nema kannski lesa bækur. Ekki renndi ég mér niður tré-staur og uppskar þúsund flísar, það nokkuð er víst!
En sú stutta er greinilega komin á bragðið, því að í dag vildi hún að ég syngi fyrir hana NÝ lög fyrir hvílutímann (það reyndist merkilega erfitt en hafðist þó fyrir rest). Núna áðan fórum við svo í hjólatúr út á leikvöll, og þá vildi hún heimsækja NÝJAN leikvöll. Hún uppskar nú bara langan hjólatúr út að flóa því að ég vissi ekki um neina nýja leikvelli í öruggri hjólafjarlægð. Á leiðinni til baka stoppuðum við á “gömlum” leikvelli (hún hefur leikið þar einu sinni áður) og hann var fullur af krökkum. Hann var því ásættanlegur í það sinn.