Nokkurn vegin komin á rétt ról aftur
Það hefur gengið vel að snúa sólarhringnum við á ný. Það hjálpar að hér er myrkur á kvöldin og næturna, en svona líka skjannabjart og sólríkt á daginn! Bæði Anna og Bjarki fóru á leikskólann í gær og í dag og voru bæði kát með það. Önnu Sólrúnu virðist lítast vel á nýja bekkinn, amk hafa síðustu tveir dagar verið “góðir dagar”. Við sjáum hvað setur eftir um tvær vikur þegar nýjabrumið er að mestu horfið.
Það eina sem skyggir á gleðina með hvað vel gengur á leikskólanum er að það tekur óheyrilegan tíma að keyra fram og til baka með krakkana. Hvor leið tekur 15-25 mín, eftir því hvað umferðin er þung. Það hjálpar ekki að Anna mætir um leið og Finnur fer í vinnuna, en Bjarki mætir ekki fyrr en um eitt. Ég prófaði í gær að fara með þeim um morguninn og keyra svo Bjarka í skólann og ná svo í allan pakkann um sex-leytið og það var bara heldur mikil keyrsla. Finnur tók hins vegar að sér aksturinn í dag.
Við höfðum hugsað okkur að slá tvær flugur í einu höggi og kaupa sparneytinn bíl til að flytja heim (halló Toyota Príus!) en hann er víst orðinn svo eftirsóttur að nú eru komnir biðlistar á bílasölurnar og bíllinn búinn að hækka talsvert í verði frá því í vor. Það verður því einhver (og mögulega löng) bið á því að við fjarfestum í svoleiðis græju.
Til að skipta akstrinum með okkur getur því verið að við fáum bílinn hennar Söruh lánaðan, en hún á það til að leggja honum á kampus – og gæti t.d. alveg lagt honum fyrir utan hjá okkur! Þá myndi Finnur fara með Önnu og ná í krakkana í dagslok, en ég keyra Bjarka í hádeginu. Á meðan reynum við að hafa augun opin fyrir leiguhúsnæði í grennd við leikskólann, eða amk í hjólafjarlægð frá honum, eða vinnunni hans Finns. Við höfum fram í ágúst til að flytja…