Kassar hér og kassar þar
Við ákváðum á þriðjudaginn að flytja okkur sjálf í staðinn fyrir að leigja menn og síðan þá hefur Finnur mætt daglega heim með kassa sem hann hefur fundið í endurvinnslu-tunnum umhverfis Gúgul. Þar sem við förum alltaf tvær ferðir heiman frá okkur og á leikskólann á dag þá fengum við leyfi til að byrja að setja kassa inn í bílskúrinn á nýja staðnum, þó svo að tæknilega byrjum við ekki að leigja fyrr en á laugardaginn.
Ég verð að viðurkenna að það gengur miklu betur að flytja svona smátt og smátt í einu heldur en þegar allt er flutt í einu, eins og við gerðum í febrúar. Þá fengum við reyndar flutningamenn til að hjálpa okkur en samt tók það okkur heila viku að jafna okkur. Í fyrsta lagi þá var svo mikið panikk að pakka svo að ALLT væri tilbúið og svo var heilmikið vesen að koma öllum 60 kössunum fyrir í frímerkja-íbúðinni okkar þannig að við kæmumst fyrir líka. Það er miklu minna panikk núna og næstum engir kassar sjáanlegir!
Þannig hefur eitt herbergi nokkurn veginn tæmst daglega, og þó að það sé reyndar slatti eftir af drasli hér og þar, þá held ég að þetta verði ekkert svo svakalegt á laugardaginn. Þá ætlum við að leigja bíl og kalla á nokkra góða vini sem hafa boðist til að hjálpa okkur að flytja húsgögnin frá A til B.
Ég get reyndar ekki slúttað þessum pósti án þess að minnast aðeins á nokkuð mikla leikskóla-dramatík sem átti sér stað í gær. Eins og við minntumst á við einhverja þegar við vorum á Íslandi, þá barst okkur sá orðrómur í maí að Gúgul-guðirnir hafi uppgötvað að það væri svakalega dýrt að reka leikskóla, og að það mætti búast við 75% hækkun á leikskóla-gjöldum.
Það varð að sjálfsögðu allt vitlaust og hækkunin var “tekin af borðinu”. Í nokkrar vikur kom fólk með tillögur að því sem hægt væri að gera til að minnka kostnað og í gær var send út lokaniðurstaðan: 69% hækkun (!!!) sem tekur gildi hægt og sígandi fram í október á næsta ári fyrir þá sem eru þegar í leikskólanum, en að fullu fyrir þá sem samþykkja pláss eftir tilkynninguna. Þess fyrir utan þá verða bekkirnir stækkaðir örlítið og opnunartíminn styttur, og biðlistagjald verður 20 þús krónur.
Eftir hækkunina þá mun það kosta $2390 (187 þús krónur) á mánuði að vera með ungabarn (6-18 mán) í heilsdags pössun, en $1710 (134 þús krónur) fyrir 3-5 ára. Með þessu minnkar niðurgreiðsla Gúgul per barn úr um milljón krónum á ári í um 390 þús krónur. Það varð auðvitað allt vitlaust aftur en þeir segja að þetta sé lokaniðurstaða. Hér er því komið fyrsta dæmið um að eitthvað innan Gúgul sér aðallega hugsað fyrir þá sem eru betur stæðir, og finnst mörgum það skítt.
Hvað okkur varðar, þá vill svo til að við erum sem stendur að borga talsvert minna hjá Gúgul en við hefðum gert á gamla leikskólanum. Hækkunin hjá Gúgul er nokkur hæg, og þegar maður leggur saman leikskólagjöldin á báðum leikskólnum fram í tímann, þá kemur í ljós að Gúgul er ódýrari kostur fyrir okkur fram til enda 2009. En þá verður Anna hvort eð er útskrifuð, og við þess fyrir utan vonandi flutt heim! En þetta var mikið sjokk fyrir foreldrana og leikskólakennarana og það á eftir að taka fólk tímana tvo að jafna sig.