Ísland komið á kortið!
Eftir að ég fluttist til Bandaríkjanna lærði ég að meta hinar ýmsu ókeypis kortaþjónustur á netinu – og þá sérstaklega Google Maps. Mér finnst þessi þjónusta svo bráðnauðsynleg að ég gæti ekki hugsað mér að vera án hennar, hvort sem maður er að bjóða fólki heim, rata í nágrenninu eða finna sér íbúð.
Þar sem ég sá fyrir mér að ég myndi á endanum flytja heim aftur 🙂 ákvað ég því að kanna málið með það hvort hægt væri að fá þessa þjónustu uppsetta fyrir Ísland. Eftir að hafa sent fyrirspurnir út um hvippinn og hvappinn (innan og utan Gúgúl) komst ég að því að erfitt er að nálgast þessi gögn fyrir Ísland (svo nýtist Gúgúl), en ég rakst loks á rétta deild innan Gúgúl og komst að því að þeir væru að setja upp vef fyrir fólk sem leyfir þeim að teikna landakort ofan á gervihnattamyndirnar sem Gúgúl á.
Það var ekki á dagskrá hjá þeim að opna fyrir Ísland, að svo stöddu. En með því að lofa að leggja fram vinnu við að kortleggja Ísland, prufukeyra nýja vefinn og senda þeim ábendingar um hvað mætti betur fara fékk ég þá til að opna fyrir mig aðgang rétt fyrir jólin 2007 og hófst handa við að kortleggja klakann. Fyrsta gatan sem ég skráði (með ánægjusvip á andlitinu) var að sjálfsögðu æskuheimili mitt í Mosfellsbænum við Álmholtið 🙂 (sem reyndar er búið að selja núna – æskuheimilið þeas., ekki götuna) 🙂
Ég eyddi í þetta ófáum kvöldum og helgum; skemmti mér konunglega við að korteggja eftir minni en verkefnið var að sjálfsögðu svo viðamikið að það var ekki nokkur leið fyrir einn mann að klára það á skikkanlegum tíma. En margar hendur vinna létt verk, eins og sagt er og með hjálp góðra manna (og kvenna) er höfuðborgarsvæðið svona að mestu komið – allavega rótgrónu hverfin.
Um daginn var svo opnað á aðgang almennings að gögnunum (Ísland eitt af 18 löndum sem var opnað fyrir) og var vart hægt að meta hvar stoltið væri meira: hjá hópnum sem gefur út hugbúnaðinn eða mér (fyrir að hafa komið Íslandi inn á Google Maps). 🙂 Ég held reyndar að Ísland hefði komist á kortið á endanum, en það hefði kannski tekið nokkur aukaár. 🙂
En sem sagt: Ég hvet alla sem þetta lesa til að kynna sér kortin, skoða hvort búið er að kortleggja götuna ykkar og sjá hvort þið þekkið ekki einhver svæði þar sem gögn vantar. Ef ykkur vantar gmail reikning, þá hafið bara samband.
Gögnin eru ekki fullkomin og því miður virðist Gúgúl ekki eiga hágæða kort af öllu landinu, þannig að ekki er hægt að kortleggja Akureyri (sorry Jói og Kata) 🙂 en það er spurning hvort það verði ekki bara næsta baráttumál hjá mér. 🙂