Fréttir
Í dag gerðist tvennt. Í fyrsta lagi þá fór Bjarki í sína fyrst árlegu augnskoðun og þar kom í ljós að hann er örlítið nærsýnn (-1) og með smávægilega sjónskekkju, sem vinnur víst á einhvern hátt á móti nærsýninni(!?!). Augnbotninn var hins vegar í góðu lagi. Ef ég skildi lækninn rétt þá á hann að mæta í árlegar augnskoðanir fram til fjögurra ára aldurs en eftir þann aldur þá fer það meira eftir genunum heldur en fyrirburafæðingunni hvernig sjónin verður. Almennt séð fá börn víst ekki gleraugu fyrr en nærsýnin er orðin amk -2.5.
Í öðru lagi þá fundum við okkur leiguhúsnæði í næsta nágrenni við leikskóla krakkanna og vinnuna hans Finns, og erum meiri að segja búin að fá lyklana! Þannig var mál með vexti að við skoðuðum tvö hús í síðustu viku. Okkur leist sæmilega á seinna húsið og vorum að hugsa um að sækja um að leigja það. Nema hvað að þegar við fórum að fylla út umsóknina þá kom í ljós að okkur vantaði alls konar upplýsingar (bankaupplýsingar, heimilsföng og símanúmer) og þess fyrir utan vorum við ekki með launaseðla og “credit report” handhægt.
Þar sem við sátum og vorum að fylla út pappírana eftir bestu getu heyrðum við útundan okkur að amk tvö pör voru að keppast við að koma inn umsókn. T.d var ein konan í farsímanum að spyrja eiginmanninn hvenær væri von á honum með launaseðlana! Við urðum því frá að hverfa og í morgun fékk ég að vita að húsið hefði verið leigt út nokkrum mínútum eftir að við yfirgáfum það.
Við tókum okkur því til um helgina og útbjuggum umsóknarpakka til að vera nú “tilbúin” þegar næsta tækifæri gæfist. Í dag tróð ég mér svo í skoðun á tvílyftu tvíbýli (það var ekki ennþá búið að þrífa það) og leist nógu vel á til að kalla á Finn sem var samþykkur því að sækja um leigu. Þá kom nú skandínavíska samheldnin sér vel því að hjónin voru frá Þýskalandi og Svíþjóð og mig grunar að frúin hafi verið heldur fegin að fá ljóshært fólk í húsið! Við sem sagt potuðum okkur upp á þau og fengum lyklana á móti “öryggisgreiðslu”.
Húsnæðið sem um ræðir er á tveimur hæðum með stofu og eldhúsi á Pergo-parkettlagðri neðri hæðinni og svo þremur teppalögðum svefnherbergjum á þeirri efri. Alls eru 2.5 baðherbergi í húsinu (við með prívat klósett!) ásamt áföstum bílskúr með tengi fyrir þvottavél og þurrkara. Húsið er heldur nálægt einni hraðbrautinni (við sjáum hana samt ekki), en á móti kemur að allir gluggar eru tvöfaldir (sem er mjög óvenjulegt hér í Kalí) svo maður heyrir ekki mikið í umferðarniðinum. Þess fyrir utan er loftræsti/kæli-eining á neðri hæðinni og viftukerfi til að færa kuldann um húsið ef þess þarf.
Eldhúsið er allt nýtt og nú fáum við að prófa granít-borðplötur í fyrsta sinn. Það er lítill sætur bakgarður sem Finnur fær að slá og Anna getur grafið eftir ánamöðkum. Þess fyrir utan mun vera köttur sem kemur í heimsókn til að fá klapp og vatn að drekka! Það eina sem er svolítið flókið er að við þurfum að verða okkur úti um ísskáp, og svo þvottavél og þurrkara. Svo þurfum við að ákveða hvernig við ætlum að standa að flutningunum, hvort við flytjum þetta sjálf eða dýfum tánni í flutningafyrirtækjasúpuna. En það er mikill léttir að vera komin með öruggt húsnæði og það svona nálægt leikskólanum!