Flutt!
Þar með erum við flutt!! Í morgun leigðum við 17 feta “jú-hol” (Uhaul, sem er brenglun á “You haul”, sem mætti þýða sem “þú dregur”) og vorum svo heppin að fá góða vini til að hjálpa okkur að bera allt út úr gömlu íbúðinni og upp í bíl. Hetur dagsins voru Augusto & Sarah, Todd & Torie og svo Katie & Dirk, foreldrar Lulu úr gamla leikskólanum, sem tóku Önnu að sér – fóru með hana í sundtíma og höfðu ofan af henni fram eftir degi.
Bíllinn var orðinn troðfullur um hádegisbilið og þá yfirgáfu hjálparkokkarnir okkur til að fara í útréttingar og útskriftarveislur. Við Finnur keyrðum því ein (með Bjarka) yfir að nýja húsinu og hófum að afferma bílinn. Þegar við vorum búin með rúmlega helming snéru hjálparkokkarnir aftur akkúrat á réttum tíma til að ýta risadýnunni okkur upp á efri hæðina. Það tók enga stund að klára að tæma bílinn og á meðan honum var skilað þá náðist að setja saman rúmin.
Það passaði að rúmin voru nýkomin saman þegar K&D; komu með krakkaskarann í nýja húsið. Svo var farið að sækja pizzur og ís og á meðan voru fleiri húsgögn borin upp á efri hæðina. Nú er orkan með öllu búin og best að skríða í bólið. Á morgun bíða hreingerningar á gömlu íbúðinni, svo og að byrja að taka úr kössunum hérna heima. Okkur lýst annars voða vel á þetta. Finnur orðaði það svo að það væri eins og að við værum komin í sumarfrís-íbúð (eins og á Hawaii) því þetta væri allt of fínt og rúmgott til að við gætum átt heima hérna!